Forsætisráðherra stýrði ársfundi Heimsráðs kvenleiðtoga
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stýrði í dag ársfundi Heimsráðs kvenleiðtoga í Hörpu. Fundurinn var haldinn í tengslum við Heimsþing kvenleiðtoga sem er nú haldið í fimmta sinn á Íslandi.
Í opnunarávarpi sínu á ársfundi Heimsráðs kvenleiðtoga rifjaði forsætisráðherra upp að þegar ráðið tók til starfa 1996 hafi þátttakendur aðeins verið tíu. Nú taki 85 kvenleiðtogar þátt í starfi heimsráðsins. Þrátt fyrir þær framfarir sé enn mikið verk að vinna. Þannig séu konur aðeins 26 prósent fulltrúa á þjóðþingum heimsins og aðeins í 14 ríkjum séu konur a.m.k. helmingur ráðherra í ríkisstjórn.
„Ég legg áherslu á aukið samstarf innan Heimsráðsins. Við eigum að halda áfram að sameinast um markmið okkar að vera fulltrúar kvenna á heimsvísu og tryggja okkar réttmæta stað hvar sem ákvarðanir eru teknar. Að leggja áherslu á kynbundin sjónarmið á öllum sviðum stuðlar að bættum samfélögum,“ sagði forsætisráðherra.
Heimsráð kvenleiðtoga er handhafi verðlaunanna The Power toghether awards sem voru afhent í fimmta sinn á heimsþinginu í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók við verðlaununum fyrir hönd Heimsráðsins ásamt Lauru Liswood, framkvæmdastjóra Heimsráðsins.
Fyrr í dag tók forsætisráðherra þátt í pallborðsumræðum á Heimsþingi kvenleiðtoga ásamt Sima Sami Bahous, framkvæmdastýru UN Women, þar sem rætt var um mikilvægi kvenleiðtoga. Forsætisráðherra og framkvæmdastýra UN Women áttu einnig tvíhliða fund þar sem m.a. var rætt um erfiða stöðu kvenna í Úkraínu og Íran.
Þá átti forsætisráðherra einnig tvíhliða fundi með Margaritu Robles Fernández, varnarmálaráðherra Spánar, Marie-Louise Coleiro Preca, fyrrverandi forseta Möltu, Sviatlönu Tsikhanouskaya, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús og Bidya Devi Bhandari, forseta Nepal.
Í kvöld mun forsætisráðherra flytja ávarp á málþinginu The Voices and Languages of Indigenous and Minority Communities: What Can Women Leaders Do.