Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tekur formlega við formennsku í Evrópuráðinu af Breifne O’Reilly, fastafulltrúa Írlands gagnvart Evrópuráðinu. - myndSandro Weltin @CoE

Ísland tók formlega við formennsku í Evrópuráðinu af Írum á fundi ráðherraráðsins í Strassborg í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum sem nýr forseti ráðherranefndarinnar og kynnti um leið formennskuáætlun Íslands.

„Ísland fær það ábyrgðarmikla verkefni að leiða Evrópuráðið á tímum sem fela í sér miklar áskoranir. Grundvallargildi ráðsins - lýðræði, réttarríkið og mannréttindi – eiga undir högg að sækja eins og hörmulegt árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu sýnir svo glöggt. Helsta markmiðið í formennskutíð Íslands verður því að efla þessi grundvallargildi og styrkja ráðið sem málsvara þeirra. Ísland tekur forystuhlutverki sínu alvarlega á þessum krefjandi tímum,” segir Þórdís Kolbrún.

Þetta er í þriðja sinn sem Ísland fer með formennsku í Evrópuráðinu frá inngöngu árið 1950 en áður leiddi Ísland starfsemina 1955 og 1999. Formennskunni lýkur formlega með leiðtogafundi í Reykjavík sem forsætis- og utanríkisráðherra boða til í maí á næsta ári. Um er að ræða fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins frá upphafi. Hann verður fjölmennasti leiðtogafundur og ráðherrafundur sem haldinn hefur verið á Íslandi.

„Auk þess að leggja kapp á að styrkja ráðið í sessi sem sterka og opna alþjóðastofnun sem verndar áðurnefnd grundvallargildi ætlum við í formennskunni að leggja sérstaka áherslu á umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti. Þá felur formennskan í sér margvíslega menningarviðburði,“ segir Þórdís Kolbrún.

Í heimsókn sinni til Strassborgar átti utanríkisráðherra fundi með framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, Mariju Pejčinović Burić, og forseta Evrópuráðsþingsins, Tiny Kox. Þá stýrði utanríkisráðherra óformlegum umræðum með sendiherra Úkraínu og sendiherrum nokkurra líkt þenkjandi ríkja um hvernig styðja megi við Úkraínu á formennskutímabilinu.
Að ráðherraráðsfundinum loknum verður sérstakur sporvagn skreyttur norðurljósum í tilefni formennskunnar formlega tekinn í notkun. Utanríkisráðherra tekur sér far með vagninum í ráðhús Strassborgar þar sem íslenski fáninn verður dreginn að húni. Loks verður sérstakri menningardagskrá formennskunnar ýtt úr vör með tónleikum hljómsveitarinnar Umbru.

Í ferð sinni sótti utanríkisráðherra einnig lýðræðisráðstefnu Evrópuráðsins, World Forum for Democracy, þar sem leiðtogar, sérfræðingar, aðgerðasinnar og frjáls félagasamtök ræddu lausnir við helstu ógnum sem steðja að lýðræði og grundvallarmannréttindum í nútímasamfélögum. Sérstakur ungmennafulltrúi Íslands tók einnig þátt í ráðstefnunni. Ísland tekur við formennskunni á sama tíma og lýðræðisráðstefnan fer fram til að undirstrika áherslu Íslands á lýðræðisleg gildi.

Um Evrópuráðið

46 ríki með um 700 milljónir íbúa eiga aðild að Evrópuráðinu (e. Council of Europe, CoE). Markmið ráðsins er að standa vörð um mannréttindi, lýðræðislega stjórnarhætti og réttarríki í álfunni, og jafnframt að efla lífsgæði Evrópubúa. Evrópuráðið var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar, m.a. með það að markmiði að stuðla að stöðugleika og koma með því í veg fyrir annað stríð í álfunni. Evrópuráðið vinnur á grundvelli alþjóðasamninga sem gerðir eru á vettvangi ráðsins. Ráðið vinnur m.a. að mannréttindamálum, lýðræðismálum, réttarfarsmálum, jafnrétti, tjáningarfrelsi, umhverfismálum, sveitarstjórnarmálum og mennta- og menningarmálum. Evrópuráðið hefur staðið að gerð um 200 alþjóðasamninga á ýmsum sviðum sem hafa jafnframt haft áhrif í öðrum heimshlutum. Mannréttindadómstóll Evrópu, sem er ein af lykilstofnunum á sviði mannréttinda í heiminum, framfylgir mannréttindasáttmála Evrópu.

Nánari upplýsingar um formennsku Íslands í Evrópuráðinu má finna í formennskubæklingi Íslands.

  • Þórdís Kolbrún og Marija Pejčinović Burić, frkvstj. Evrópuráðsins - mynd
  • Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu - mynd úr myndasafni númer 2
  • Sporvagninn tekinn formlega í notkun - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta