Kynning á skýrslu um stöðu og áskoranir friðlýstra svæða - beint streymi
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði síðastliðið vor þriggja manna starfshóp sem fékk það hlutverk að vinna skýrslu sem varpa á ljósi á stöðu friðlýstra svæða á Íslandi og áskoranir sem þeim fylgja.
Starfshópurinn hefur skilað ráðherra skýrslu sinni og eru niðurstöður hennar kynntar í dag. Hægt er að fylgjast með kynningunni í beinu streymi á vef Stjórnarráðsins.
Í skýrslunni eru helstu niðurstöður dregnar saman í svokallaða lykilþætti auk gagnlegra upplýsinga um stöðu málaflokksins. Mikilvægur lykilþáttur sem oft kom upp í vinnu hópsins er traust á milli stjórnvalda og hagaðila þegar unnið er að undirbúningi friðlýsinga, innleiðingu regluverks og uppbyggingu innviða.
Á fundinum verða einnig kynntar niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð var í tengslum við vinnu starfshópsins, þar sem m.a. koma fram áhugaverðar niðurstöður varðandi viðhorf til gjaldtöku á friðlýstum svæðum.
Starfshópinn skipuðu þau:
- Árni Finnsson, formaður hópsins
- Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir
- Sveinbjörn Halldórsson
Víðtækt samráð var haft við hagaðila við gerð skýrslunnar og byggði hópurinn við vinnu sína auk gagna og rannsókna sem fyrir liggja, á ýmsum ábendingum frá þeim sem mættu á fund starfshópsins eða sendu inn upplýsingar.