Áslaug Arna á stærstu tækniráðstefnu kvenna í Asíu
Stærsta ráðstefna kvenna í tækni um alla Asíu, She Loves Tech ráðstefnan, fór fram í Singapúr í dag. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávarpaði þar ráðstefnugesti í svokölluðu Fireside Chat pallborði ásamt Sim Ann, ráðherra uppbyggingar- og innviða í Singapúr og sérstaks utanríkisráðherra en Virginia Tan, einn af stofnendum She Loves Tech ráðstefnunnar stýrði samtalinu. Áslaug Arna hefur, ásamt sendinefnd, verið í Singapúr síðustu daga en tilgangur heimsóknarinnar er að styrkja tengsl Íslands og Singapúr og kynnast aðferðum þeirra með sérstakri áherslu á háskóla og vísindi, nýsköpun og hugverkaiðnað þar sem Singapúr skarar fram úr þegar kemur að uppbyggingu háskóla og nýsköpunarumhverfis á liðnum árum.
Yfirskrift She Loves Tech ráðstefnunnar í ár er #DaringToBe. Í takt við þetta fjallaði Áslaug Arna m.a. um mikilvægi þess að konur taki höndum saman og styðji hvor aðra á sviðum sem í gegnum tíðina hafa verið karllæg. Þannig sé mikilvægt að útrýma sjónarmiðum eins og að aðeins sé pláss fyrir fáar konur í efstu lögum bæði einkageirans og hins opinbera. Þá fjallaði ráðherra einnig um íslenskt tungumál og tækni en með aukinni notkun tækni á borð við gervigreind í daglegu lífi kemur æ skýrar í ljós hve mikinn kynjahalla er þar að finna. Þetta má t.d. sjá í vélþýðingarkerfum og öðrum máltæknilausnum sem ítrekað senda frá sér karllægt mál út frá þeim málgögnum sem tölvukerfin nota.
„Það felast mikil tækifæri í tækninni en samhliða þeim koma einnig upp áskoranir. Á Íslandi finnum við fyrir kynjahalla víða í tækni, t.d. treystum við nú í mun meira mæli á gervigreind enda færir hún okkur ótrúleg tækifæri,“ benti Áslaug Arna á í pallborðsumræðu. „Ísland er fámenn þjóð og okkur er annt um tungumálið okkar. Þar hjálpar tæknin okkur, m.a. með þýðingarvél Google. Það var því sláandi þegar bent var á hve kynjaðar þessar þýðingar eru.“
Margt sameiginlegt með Singapúr og Íslandi
Ísland og Singapúr eiga það sameiginlegt að vera eyríki sem treysta á inn- og útflutning og leggja mikla áherslu á nýsköpun og menntun. Áslaug Arna, ráðherra háskóla og nýsköpunar, hefur lagt mikla áherslu á fjölgun fólks í STEAM greinum á Íslandi, en líkt og í mörgum öðrum löndum hallar þar sérstaklega á konur. Singapúr hefur náð eftirtektarverðum árangri þegar kemur að hlutfalli kvenna í tæknigreinum, en á aðeins sjö árum hefur þar orðið 40% aukning.
„Það er mikilvægt að á bak við tæknina sé fjölbreyttur hópur, t.d. ekki einungis karlmenn. Tækninni fleygir áfram og með betri tækni á borð við íslenska máltækni skapast líka aukin hætta á þróaðri netglæpum sem erfitt getur verið að sjá í gegnum,“ segir Áslaug Arna. Til að taka á nýjum leiðum sem nýta tæknina gegn fólki þurfi lagaumgjörð að taka breytingum á borð við þær sem gerðar voru til að tryggja kynferðislega friðhelgi. „Þar kom Ísland sér í leiðtogasæti í baráttunni við stafrænt kynferðisofbeldi,“ benti ráðherra á.
Við pallborðið ræddu Áslaug Arna og Sim Ann einnig aðgerðir til að stuðla að frekari tækifærum kvenna í atvinnulífinu, en í ráðherrastörfum sínum hefur Sim Ann lagt mikla áherslu á tækni og jafnrétti. Um leið og rætt var um tækifærin sem felast í auknu samstarfi Íslands og Singapúr hvatti Sim Ann konur til dáða og benti á að engin geti gert allt en allar geta gert eitthvað.