Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Farið fram á aukafund í mannréttindaráðinu vegna Írans

Farið fram á aukafund í mannréttindaráðinu vegna Írans - myndUN Photo/Jean-Marc Ferré

Ísland og Þýskaland óskuðu í gær eftir að haldinn verði aukafundur mannréttindráðs Sameinuðu þjóðanna til að fjalla um ástand mannréttindamála í Íran. Fundinn skal halda svo fljótt sem hægt er og að teknu tilliti til þéttrar dagskrár ráðsins má reikna með honum innan tveggja vikna.

Síðustu vikur hafa staðið yfir fjölmenn mótmæli í Íran sem hafa verið leidd af konum og stúlkum sem krefjast þess að njóta grundvallarmannréttinda. Fjöldi þeirra hefur verið handtekinn og settur í fangelsi og ítrekað berast fregnir af grófri valdbeitingu af ýmsu tagi. Þá benda skýrslur einnig til þess að vel yfir 300 mótmælendur hafi látist og þar nálægt 40 börn. Viðbrögð íranskra stjórnvalda við mótmælunum hafa verið langt umfram allt meðalhóf og sterkar efasemdir eru uppi um getu og vilja stjórnvalda til að láta einstaklinga innan lögreglu og stjórnkerfis sæta ábyrgð á framgöngu sinni og verkum.

Á aukafundinum munu Ísland og Þýskaland leita stuðnings ráðsins við að Sameinuðu þjóðirnar fari markvisst í að safna saman upplýsingum og gögnum yfirstandandi atburði og leggi þannig betri grundvöll að því að hægt sé að draga gerendur til ábyrgðar hvort heldur fyrir írönskum eða alþjóðlegum dómstólum.

Mörg aðildarríki hafa verulegar efasemdir um að rétt sé að mannréttindaráðið láti mál til sín taka með þessum hætti en það er grundvallarafstaða Íslands að ráðið verði að láta alvarlega mannréttindamál til sín taka sama þótt ríkið sem hlut eigi að máli sé því ósammála.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta