Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Breyting á reglugerð um útlendinga

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur undirritað reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017.

Þann 1. júlí sl. fluttist þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Útlendingastofnun til Vinnumálastofnunar. Breytingarnar voru í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands en samkvæmt honum fluttist þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá dómsmálaráðuneytinu yfir til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá þjónustu frá Vinnumálastofnun meðan á afgreiðslu umsókna þeirra stendur. Komi til verndarveitingar heldur þjónusta Vinnumálastofnunar áfram í allt að átta vikur frá birtingu ákvörðunarinnar.

Í ofangreindri reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga hefur verið bætt við ákvæði um að þjónustu á vegum Vinnumálastofnunar ljúki þremur dögum eftir að einstaklingi býðst annað húsnæði á vegum opinbers aðila en það búsetuúrræði sem Vinnumálastofnun sér um. Viðkomandi getur þó eftir sem áður sótt um aðstoð hjá sveitarfélagi, skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sveitarfélögin fá síðan tiltekinn útlagðan kostnað vegna þjónustu við flóttafólk endurgreiddan frá ríkinu fyrstu tvö árin eftir að flóttafólk skráir lögheimili hér á landi.

Reglugerðarbreytingin tekur eingöngu til þess hóps flóttafólks sem þegar hefur fengið vernd hér á landi og er í búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd en á að færast eftir verndarveitinguna í annað húsnæði sem hugsað er til lengri tíma.

Einnig er í ofangreindri reglugerð orðinu Útlendingastofnun breytt í orðið Vinnumálastofnun þar sem það á við í þeim kafla reglugerðarinnar sem snýr að þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta