Á fjórða hundrað sóttu vel heppnað heilbrigðisþing um lýðheilsu
Húsfyllir var á heilbrigðisþingi um lýðheilsu á hótel Hilton Nordica 10. nóvember síðastliðinn og töldu gestir á fjórða hundrað manns. Þeir sem ekki komust að gátu fylgst með beinu streymi frá þinginu og voru margir sem nýttu sér það. Upptaka frá þinginu er aðgengileg á www.heilbrigdisthing.is. Þar má einnig nálgast stakar upptökur af erindum allra fyrirlesaranna ásamt upplýsingum um þá og dagskrá þingsins.
Heilsa eins – allra hagur var yfirskrift heilbrigðisþingsins. Heilbrigðisþing hafa verið haldin árlega frá árinu 2018 þegar gildandi heilbrigðisstefna til ársins 2030 var í mótun. Með því að helga þingið í ár lýðheilsu var fylgt eftir þeim áherslum sem fram koma í ályktun Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030, með áherslu á innleiðingu hennar.
Á þinginu voru kynnt drög að aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu sem verkefnahópur skipaður heilbrigðisráðherra vinnur nú að. Það er í samræmi við þingsályktun Alþingis sem kveður á um gerð slíkra áætlana til fimm ára í senn til að hrinda lýðheilsustefnunni í framkvæmd. Horft er til þess að framlög fyrirlesara og annarra sem tóku þátt í þinginu 10. nóvember muni nýtast við mótun aðgerðaáætlunarinnar.