Áhersla á loftslagstengda þróunarsamvinnu og jafnréttismál á COP27
Ísland var formlega tekið inn í samstarfshóp ríkja um fjármögnun aðlögunaraðgerða vegna afleiðinga loftslagbreytinga í þróunarríkjum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, í vikunni. Samstarfið er í samræmi við stóraukna áherslu íslenskra stjórnvalda á loftslagstengda þróunarsamvinnu en fulltrúar Íslands hafa fundað með öllum helstu samstarfaðilum á þeim vettvangi á ráðstefnunni, svo sem Græna loftslagssjóðnum, Aðlögunarsjóðnum, Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP), UNIDO, SEforAll auk annarra.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra tók þátt í lokaviðburði jafnréttisdags COP27 á vegum SEforAll (Sustainable Energy for All) þar sem hún áréttaði stuðning Íslands við SEforALL þá sérstaklega verkefni um valdeflingu kvenna í orkuiðnaði. Hún reifaði ennfremur mikilvægi jafnréttis í stefnu íslenskra stjórnvalda, sem ein af grunnstoðum Íslands í þróunarsamvinnu.
Í seinni viku loftslagsráðstefnunnar hefur utanríkisráðuneytið einkum beint sjónum sínum að jafnréttismálum. Fulltrúi Íslands tók þátt í pallborðsumræðum um þörfina fyrir fjármagn til að jafnréttis verði gætt við orkuskiptin. Helstu áherslur í umræðunni voru um leiðir til að bæta aðgengi kvenna að loftslagstengdri fjármögnun fyrir orkuverkefni sem geta haft mikla þýðingu til að flýta orkuskiptum í þróunarríkjum.
Loftslagsráðstefnunni lýkur á föstudaginn.