Upplýsingastefna stjórnvalda samþykkt
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur samþykkt tillögu starfshóps um gerð upplýsingastefnu stjórnvalda að samnefndri stefnu. Þá verður settur á fót starfshópur um mótun aðgerðaáætlunar Stjórnarráðsins um framkvæmd upplýsingastefnunnar.
Upplýsingastefnu stjórnvalda er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir öll stjórnvöld en þar eru sett fram leiðarljós, meginmarkmið og helstu áherslur við miðlun upplýsinga. Meginmarkmið stefnunnar eru þrjú: gagnsæi í störfum stjórnvalda, öflug miðlun upplýsinga og greiður aðgangur að upplýsingum.
Drög að stefnunni voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda í haust og bárust alls átta umsagnir. Umfjöllun um samráð og viðbrögð við umsögnum er að finna í sérstöku niðurstöðuskjali samráðs.