Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fyrsta skrefið tekið í átt að nýju greiðslu- og þjónustukerfi vegna starfsgetumissis

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um lengingu á greiðslutímabili endurhæfingarlífeyris. Lagt er til að fólki verði gert kleift að fá greiddan endurhæfingarlífeyri í allt að fimm ár, í stað þriggja samkvæmt gildandi lögum. Frumvarpið er fyrsta skrefið í umbyltingu á greiðslu- og þjónustukerfi almannatrygginga vegna starfsgetumissis. Markmiðið er að reyna að draga úr ótímabæru brotthvarfi fólks af vinnumarkaði, fjölga þeim sem snúa aftur til vinnu og fyrirbyggja ótímabæra örorku fólks.

Í frumvarpinu er lagt til að greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris verði lengt þannig að það verði allt að 36 mánuðir í stað 18 mánaða eins og nú. Einnig að heimild til að framlengja greiðslutímabilið verði lengd úr 18 mánuðum í 24 mánuði. Þetta þýðir sem fyrr segir að tímabil endurhæfingarlífeyris verður allt að fimm ár í stað þriggja ára.

„Er með þessu móti stefnt að því að bæta réttarstöðu einstaklinga með alvarlegan heilsuvanda, svo sem ungs fólks með nýlegar geðgreiningar þar sem viðeigandi heilbrigðismeðferð er ekki lokið,“ sagði Guðmundur Ingi þegar hann mælti fyrir frumvarpinu og undirstrikaði að með því að tryggja einstaklingum nauðsynlega framfærslu, vonandi eins lengi og nauðsyn bæri til, væri þeim gert kleift að ljúka bæði læknisfræðilegri meðferð og starfsendurhæfingu.

„Höfum það hugfast að það munar mikið um hvern einasta einstakling sem unnt er að endurhæfa til virkni í samfélaginu. Þetta segi ég með hag einstaklingsins og samfélagsins alls í huga,“ sagði ráðherra enn fremur.

Nýgengi örorku hefur lækkað

Undanfarin ár hefur aukin áhersla verið lögð á að starfsendurhæfing sé reynd áður en kemur til mats á örorku. Sú áhersla hefur skilað árangri. Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins hefur nýgengi örorku lækkað um 28% milli áranna 2016 og 2020 en þá þróun má fyrst og fremst rekja til fjölgunar þeirra sem láta reyna á starfsendurhæfingu áður en kemur til örorkumats.

Á sama tíma hefur verið lögð áhersla á að efla samvinnu velferðarkerfa þvert á félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Markmiðið hefur verið að tryggja samþættingu í endurhæfingu fólks. Ofangreint frumvarp styður enn frekar við þessa nálgun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta