Markið sett hærra og stefnt að 1.500 römpum
Rampur númer 300 í verkefninu Römpum upp Ísland var vígður við hátíðlega athöfn í Mjóddinni í dag. Upphaflega stóð til að vígja ramp númer 250 á þessum degi en sökum góðs gengis er verkefnið nú sex mánuðum og 50 römpum á undan áætlun. Við þetta tækifæri tilkynntu Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Haraldur Þorleifsson, forsprakki Römpum upp Ísland, að markið yrði sett hærra og að fjölga ætti römpum, úr 1.000 í 1.500.
Aðrir sem tóku til máls voru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
„Römpum upp Ísland er frábært dæmi um samstarf ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila með skýrt markmið: Að ryðja úr vegi hindrunum í lífi fólks og tryggja jafnt aðgengi fyrir okkur öll. Verkefnið hefur vaxið og dafnað og verið okkur öllum innblástur og áminning um að það er hægt að lyfta grettistaki þegar við tökum öll höndum saman.“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Ég elska þetta samstarf. Halli kom fyrst að máli við mig með þessa frábæru hugmynd en hvorugur okkar vissi hvort þetta myndi ganga eða hvert þetta myndi fara. Verkefnið hefur um leið breytt viðhorfum í samfélaginu til aðgengismála og við hjá borginni erum mjög stolt að hafa verið með i þessu frá upphafi og ekki verra að 300. rampurinn sé hérna í Mjóddinni,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Skólahljómsveit Breiðholts og Árbæjar opnaði viðburðinn með ljúfum tónum en einnig var boðið uppá veitingar á meðan á viðburðinum stóð. Sigríður Theódóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra Brandenburg stýrði viðburðinum.
Nánar um verkefnið
Römpum upp Ísland er verkefni sem miðaði að því að setja upp 1.000 rampa á næstu 4 árum. Nú hefur markið verið sett hærra og 1.500 verða reistir á tímabilinu. Stofnaður var sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem munu standa straum af kostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu. Með römpunum er öllum gert kleift að sækja veitingastaði og verslanir þátttakenda á landinu öllu. Unnið verður í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvalda. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins.
Styrktaraðilar verkefnisins Römpum upp Ísland eru innviðaráðuneytið, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, BM Vallá, Davíð Helgason, Össur, Info Capital, Brandenburg, Efla. Aton.JL, Deloitte, Lex lögmannsstofa, Gæðaendurskoðun slf, Öryrkjabandalag Íslands, Sjálfsbjörg, Atlantsolía og ÞG Verk