Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2022 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra tók á móti forsætisráðherra Finnlands

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag á móti Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands, sem er í vinnuheimsókn á Íslandi. Ráðherrarnir áttu fyrst tvíhliða fund og ræddu svo um áskoranir og tækifæri samtímans í hádegisspjalli.

Á tvíhliða fundi sínum sem fram fór í Norræna húsinu í morgun minntust forsætisráðherrarnir 75 ára stjórnmálasambands Íslands og Finnlands. Á þeim tíma hafa ríkin átt margvíslegt farsælt samstarf s.s. á sviði stjórnmála og viðskipta, menningar- og menntamála. Ráðherrarnir ræddu um hvernig efla megi enn samstarfið og var sammæli um að setja af stað vinnu við að kortleggja á hvaða sviðum ríkin eiga helst samleið og hvernig ríkin geti unnið saman til að mæta loftslagsbreytingum og örri tækniþróun.

Forsætisráðherrarnir ræddu einnig um loftslagsmál, orkumál, sjálfbærni, jafnréttismál, ekki síst kynferðislegt og kynbundið ofbeldi, hatursorðræðu og andlega líðan ungs fólks. Norrænt samstarf var einnig til umræðu en Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. Loks ræddu ráðherrarnir aðildarumsókn Finnlands að Atlantshafsbandalaginu, stríðið í Úkraínu og formennsku Íslands í Evrópuráðinu.

Húsfyllir var í Þjóðminjasafninu þar sem hádegisspjall forsætisráðherranna fór fram. Þar ræddu þær Katrín og Sanna m.a. um sjálfbæra þróun, velsældarhagkerfið og aðgerðir í loftslagsmálum. Mannréttindi og jafnréttismál voru einnig meðal umfjöllunarefna sem og sú skautun sem er að verða í stjórnmálaumræðu víða um heim.

  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sabina Westerholm, forstjóri Norræna hússins, og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands. - mynd
  • Forsætisráðherra tók á móti forsætisráðherra Finnlands - mynd úr myndasafni númer 2
  • Sanna Marin og Katrín Jakobsdóttir ásamt Greipi Gíslasyni, einum af hönnuðum og höfundum sýningar um tengsl Íslands og Finnlands í 75 ár. - mynd
  • Frá hádegisspjalli forsætisráðherranna sem Heimir Már Pétursson fréttamaður stýrði. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta