Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Þórdís Kolbrún stýrði fundi EES-ráðsins

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, stýrir fundinum í dag. - myndEFTA

Samstarf ríkja Evrópska efnahagssvæðisins á sviði orkuskipta og orkuöryggis í Evrópu var efst á baugi á fundi EES-ráðsins í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum af hálfu EES-EFTA-ríkjanna á fundi EES-ráðsins í Brussel þar sem Ísland gegnir nú formennsku í EES-samstarfinu.

Aðgerðir í loftslagsmálum og hrein orkuskipti eru á meðal mestu áskorana samtímans en nú skipta orkuskipti ekki síður máli í öryggistilliti í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu. Markmiðið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 er meðal forgangsmála ríkisstjórnarinnar og þar munu orkuskiptin leika lykilhlutverk.

„Okkar upphafspunktur er nokkuð annar en margra samstarfsríkja okkar innan EES þar sem okkur bar gæfa til að nýta jarðhita til húshitunar á sínum tíma og raforkuframleiðsla er hér einnig þegar græn,“ sagði Þórdís Kolbrún.

„Aðalverkefni okkar framundan í orkuskiptum er á samgöngusviðinu. Það er að verulegu leyti háð tækniframförum en sameiginleg markmið okkar og ESB-ríkjanna eru okkur hvatning til þess að þeim verði hraðað eins og kostur er,“ sagði utanríkisráðherra eftir fund EES-ráðsins.

Á fundinum var einnig rætt um stöðu og framkvæmd EES-samningsins. Lagði Ísland áherslu á góða framkvæmd samningsins.

EES-ráðið er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES (Íslands, Liechtenstein og Noregs) og fulltrúum framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB þar sem Tékkar fara nú með formennsku.

Í dag fór auk þess fram reglubundið pólitískt samráð EFTA-ríkjanna innan EES og ESB um utanríkismál þar sem staða Úkraínu var meginumræðuefnið. Einnig var rætt um öryggismál í Evrópu á breiðari grundvelli.

Ráðherra sat einnig fund EFTA-ríkjanna innan EES með ráðgjafarnefnd og þingmannanefnd EES þar sem stríðið í Úkraínu var rætt sérstaklega, ásamt umræðum um græn umskipti, orkuöryggi og stafræna þróun.

Á morgun mun utanríkisráðherra taka þátt í sérstökum aukafundi í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf um stöðu mannréttindamála í Íran en fundurinn er haldinn að beiðni Íslands og Þýskalands.

  • Pascal Schafhauser, sendiherra Liechtenstein gagnvart ESB, Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, Jan Lipavský, forseti ráðherraráðs ESB og Maroš Šefčovič varaforseti framkvæmdastjórnar ESB. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta