Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Kænugarði
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti Kænugarð í Úkraníu í dag ásamt utanríkisráðherrum frá öðrum Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum. Í heimsókninni áttu ráðherrarnir fundi með úkraínskum ráðamönnum, þar á meðal Volodomir Selenskí forseta, Denys Shmyhal forsætisráðherra, Olgu Stefanishynu aðstoðarforsætisráðherra og Dmytro Kuleba utanríkisráðherra. Á fundunum var ástandið í Úkraínu rætt og kölluðu stjórnvöld eftir áframhaldandi stuðningi.
Þá kynntu ráðherrarnir sér skemmdir af völdum rússneskra árása og lögðu blómsveig í minningu fórnarlamba hinnar manngerðu hungursneyðar sem kostaði milljónir Úkraínumanna lífið árin 1932–1933 (Holodomor).
„Það skiptir miklu máli að geta séð með eigin augum aðstæður í úkraínsku höfuðborginni, jafnvel þótt að um stutta heimsókn sé að ræða. Það sem blasir við eru fyrst og fremst hinar hrikalegu afleiðingar linnulausra árása Rússa á borgaralega innviði. Hér er stöðugt barist við að halda rafmagni gangandi svo fólk geti haldið á sér hita í hryllilegum vetrarkulda sem er orðinn áþreifanlegur, snjór yfir öllu og bítandi frost,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún segir áhyggjur heimamanna ekki aðeins snúa að rafmagni heldur sé vatn einnig víða hætt að renna með tilheyrandi afleiðingum hvað varðar hreinlæti og heilsu.
Þá segir Þórdís Kolbrún gagnlegt að geta átt milliliðalaus samskipti við úkraínska ráðamenn. „Það er óhætt að segja að manni fallist hendur að sjá eyðilegginguna, en að sama skapi er baráttuþrek úkraínsku þjóðarinnar einstaklega aðdáunarvert gagnvart þeirri grimmd og illsku sem þessar ógeðfelldu árásir fela í sér. Það sem er mér efst í huga er vitaskuld að Ísland finni leiðir til þess að hjálpa og gera gagn. Hér er þjóð sem sætir tilefnislausri og fólskulegri innrás þar sem almenningur er gerður að skotmarki. Við verðum að standa með þeim.“
Þá segir hún að óskir Úkraínumanna snúist nú einna helst að áframhaldandi hernaðarlegum stuðningi og viðbrögðum við því neyðarástandi sem eyðilegging Rússa á orkuinnviðum hefur valdið.
„Hér í borginni gengur lífið töluverðan vanagang á yfirborðinu þrátt fyrir þær ógnir sem að íbúunum steðja. Hugrekki og æðruleysi er ríkjandi en þar að auki hefur mér fundist mjög áberandi hversu mikla áherslu forystufólks Úkraínu leggur á að sýna þakklæti fyrir veittan stuðning,“ segir Þórdís Kolbrún.
Utanríkisráðherrarnir héldu sameiginlegan blaðamannafund í lok dags og gáfu út yfirlýsingu.
Á morgun fer fram fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkja í Búkarest