Ísland tekur þátt í framhaldskönnun OECD um traust
Samþykkt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að Ísland taki þátt í framhaldskönnun OECD um traust. Verða veittar allt að 4 milljónir króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til verkefnisins.
Ísland tók þátt í alþjóðlegri könnun OECD á trausti og drifkröftum þess sem framkvæmd var í lok síðasta árs. Voru lokaniðurstöður könnunarinnar kynntar sl. sumar. Helstu niðurstöður hvað varðar Ísland voru að almennt ríkir traust til opinberra aðila en almenningur telur jafnframt að stjórnvöld taki ekki nægilegt tillit til ábendinga sem þeim berast.
Rúmur helmingur svarenda á Íslandi sagðist treysta stjórnvöldum á landsvísu en þriðjungur sagðist ekki treysta þeim. Traust almennings á Íslandi til opinberra aðila mældist yfir meðaltali OECD í öllum tilvikum nema þegar spurt var um traust til dómskerfisins.
Könnunin verður endurtekin haustið 2023 og hafa öll þátttökuríkin frá 2021 lýst yfir áhuga sínum að eiga aðild að framhaldskönnun. Markmið könnunar OECD eru:
- Að kanna traust fólks gagnvart mismunandi stofnunum á mismunandi stjórnsýslustigum eftir aldri, menntun, kyni og landfræðilegri stöðu.
- Að kanna hverjir eru aðal drifkraftar trausts fólks til opinberra stofnana.
- Að greina hvaða aðgerðir geta haft áhrif á traust almennings til opinberra stofnana.