Tvöföldun frítekjumarks öryrkja og stóraukin framlög vegna NPA, innflytjenda og flóttafólks
Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögur sínar að breytingum við aðra umræðu fjárlagafrumvarps ársins 2023 til fjárlaganefndar Alþingis. Breytingarnar gera ráð fyrir stórauknum framlögum til öryrkja, fatlaðs fólks, innflytjenda og flóttafólks.
Frítekjumark öryrkja verði 200.000 kr.
Lagt er til að frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega nær tvöfaldist og verði 200.000 kr. á mánuði. Frítekjumarkið er nú tæpar 110.000 kr. á mánuði.
Hækkun frítekjumarksins er mikilvæg til að ryðja úr vegi hindrunum til atvinnuþátttöku þeirra örorkulífeyrisþega sem geta og vilja verið á vinnumarkaði. Hækkunin er jafnframt hluti af heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem er sérstakt áherslumál ráðherra.
Stóraukin framlög vegna NPA – allt að 50 nýir samningar
Lagt er til að framlög vegna NPA (notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk) aukist milli fyrstu og annarrar umræðu um 375 m.kr til að gera megi allt að 50 nýja samninga. NPA-samningar eru fyrir fatlað fólk sem þarf aðstoð í daglegu lífi og er ætlað að veita því tækifæri til að lifa virku og sjálfstæðu lífi. Í dag eru um 95 samningar um slíka þjónustu í gildi og því er lagt til að þeim fjölgi um ríflega 50%.
Samtals er gert ráð fyrir að á árinu 2023 verði framlög ríkisins til NPA alls 1.083 m.kr.
Einnig er gert ráð fyrir að ríkissjóður gefi eftir 5 ma.kr. af tekjuskatti einstaklinga á móti samsvarandi hækkun í útsvarstekjum sveitarfélaga til að bæta afkomu þeirra í tengslum við stöðu á málaflokki fatlaðs fólks og stefnt að sérstöku samkomulagi um þessar breytingar.
Umsækjendur um alþjóðlega vernd og samræmd móttaka flóttafólks
Ríkisstjórnin gerir tillögu að 1.000 m.kr. fjárveitingu til að mæta kostnaði vegna fjölgunar umsækjenda um alþjóðlega vernd. Gert er ráð fyrir að á næsta ári verði samtals 3.197 m.kr. varið til þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi.
Sömuleiðis er gert ráð fyrir tímabundinni fjárheimild til eins árs að fjárhæð 350 m.kr. vegna samræmdrar móttöku flóttamanna. Þar að auki er gert ráð fyrir 175 m.kr. til að mæta húsnæðiskostnaði fyrir flóttafólk. Í heildina er gert ráð fyrir að verja 1.478 m.kr. til móttöku flóttafólks á næsta ári.
Íslenskukennsla fyrir innflytjendur og flóttafólk
Gerð er sérstök tillaga um 115 m.kr. fjárheimild til íslenskukennslu fyrir innflytjendur vegna aukins fjölda innflytjenda og flóttafólks og mikilvægi íslenskukunnáttu fyrir fólk af erlendum uppruna. Með þessu er lögð áhersla á að veita íbúum með erlendan bakgrunn tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Jafnframt er gerð tillaga að 75 m.kr. framlagi vegna starfstengdrar íslensku. Fjárveitingin er ætluð í sjóð um starfstengda íslensku á vinnustað sem úthlutað verður úr til óformlegrar, sérhæfðrar og getutengdrar íslenskuþjálfunar sem fram fer á vinnutíma.
Loks er gerð tillaga að 15 m.kr. framlagi til Fjölmenntar, símenntunar og þekkingarmiðstöðvar, til að efla fullorðinsfræðslu fatlaðs fólks.