Vinnustofa um ný æskulýðslög
Æskulýðsráð boðar til vinnustofu með aðilum á vettvangi æskulýðsmála til þess að hefja vinnu við breytingar á æskulýðslögum nr. 70/2007 mánudaginn 12. desember kl. 11–14 á Hilton Reykjavík Nordica.
Mennta- og barnamálaráðuneytið gaf út sína fyrstu stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna í lok mars sem er vegvísir til framtíðar um það sem ráðuneytið hyggst leggja áherslu á til að styðja við félags- og tómstundastarf.
Í stefnunni ber hæst endurskoðun æskulýðslaga og þarfagreining á þjónustuvettvangi tómstunda- og félagsstarfs barna og ungmenna. Brýnt er að tengja málaflokkinn enn frekar við farsældarlöggjöfina til að styðja við samþættingu þjónustu við börn og ungmenni og nýta þá þekkingu og reynslu sem er til staðar.
Á fundinum verður unnið að hugmyndasöfnun á breytingum á lögunum sem æskulýðsráð stýrir en hlutverk ráðsins er að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum, gera tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum, stuðla að samvinnu aðila um æskulýðsmál, efna til funda og ráðstefna um æskulýðsmál og sinna öðrum verkefnum sem ráðherra kann að fela því.
Dagskrá:
11:00 Húsið opnar
11:15 Ávarp og yfirferð yfir æskulýðslögin, Svava Gunnarsdóttir formaður æskulýðsráðs
11:45 Hádegisverður
12:30 Umræður, gestum skipt upp í umræðuhópa sem fjalla um einstök viðfangsefni –
hver hópur kynnir niðurstöður sínar stuttlega í lok fundar
13:30 Samantekt
14:00 Fundarlok
Skráningu á fundinn lýkur miðvikudaginn 7. desember kl. 16.