Anna María Urbancic skipuð skrifstofustjóri fjármála í matvælaráðuneyti
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að skipa Önnu Maríu Urbancic sem skrifstofustjóra á skrifstofu fjármála í matvælaráðuneyti.
Anna María lauk meistaranámi í viðskiptafræði með áherslu á stefnumótun og stjórnun frá Háskóla Íslands árið 2005 og sem viðskiptafræðingur (Cand. oecon) frá sama skóla árið 1990. Þá er hún að ljúka meistaranámi í opinberri stjórnsýslu (MPA).
Anna María á að baki farsæla reynslu af stjórnun, rekstri og mannauðsmálum hjá hinu opinbera. Hún starfaði hjá Listasafni Íslands í tíu ár og hefur starfað í Stjórnarráðinu í sjö ár. Hún var deildarstjóri rekstrar í umhverfisráðuneytinu á árunum 2005 til 2007, framkvæmdastjóri og staðgengill forstöðumanns Listasafns Íslands á árunum 2008 til 2018, rekstrarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu árin 2018 til 2022 og starfar nú sem rekstrar- og mannauðsstjóri hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.