Heiðrún Tryggvadóttir skipuð skólameistari Menntaskólans á Ísafirði
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Heiðrúnu Tryggvadóttur í embætti skólameistara Menntaskólans á Ísafirði til fimm ára frá 1. janúar 2023.
Heiðrún lauk B.A.-prófi í íslensku og kennslufræði til kennsluréttinda árið 1997. Þá lauk hún M.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2015. Heiðrún stundar nú diplómanám í opinberri stjórnsýslu.
Heiðrún hefur starfað við menntamál frá árinu 1997 þar sem hún hefur kennt við ýmsa grunnskóla, verið verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða 2009–2010, kennt og sinnt námsefnisgerð hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða 2009–2013 og starfað við Menntaskólann á Ísafirði frá árinu 2015. Þann tíma hefur hún verið áfangastjóri og leyst af á tímabilum sem aðstoðarskólameistari. Þá hefur hún verið starfandi skólameistari Menntaskólans frá ársbyrjun 2022. Auk þess hefur Heiðrún sinnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum árin.
Alls sóttu tveir umsækjendur um embættið.