Hoppa yfir valmynd
2. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Mikilvægi norrænnar samvinnu um almannavarnir á ráðherrafundi Haga-samstarfsins í Reykjavík

Norrænir ráðherrar eða fulltrúar þeirra sem eru ábyrgir fyrir almannavörnum hittust á árlegum fundi Haga-samstarfsins í Reykjavík 2. desember. Haga-samstarfið er samstarf Norðurlandanna um almannavarnir sem stofnað var til árið 2009 á ráðherrafundi í Haga í Svíþjóð og hefur samstarfið síðan verið kennt við staðinn. Á vettvangi samstarfsins  hittast fulltrúar Norðurlandanna reglulega og ræða helstu áskoranir á því sviði hverju sinni og deila þekkingu og reynslu. Ráðherrar sem bera ábyrgð á málaflokknum funda árlega og þróa nýjar samstarfsleiðir til að efla viðbragðshæfni samfélaganna við hættuástandi, slysum og hamförum. Markmið Haga er því að efla öryggi almennings með því að auka og styrkja samstarf Norðurlandanna um almannavarnir.

Ísland með formennsku undanfarið ár

Ísland hefur verið með formennsku í Haga samstarfinu á þessu ári. Í formennskutíð Íslands hefur verið unnið markvisst að því að framfylgja áhersluatriðum Haga-samstarfsins fyrir árin 2022-2024 sem ráðherrarnir ákváðu í sameiningu á fundi sínum í fyrra. Á vettvangi Haga-samstarfsins hefur áfram verið áhersla á náið samstarf með framkvæmdaraðilum almannavarna og sem dæmi hélt Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra svokallaðan Nordic Executive Course í Reykjavík í september. Yfirskriftin var Norræn samvinna með sérstakri áherslu á loftslagsbreytingar og móttöku gistiríkjastuðnings. Á ráðstefnunni hittust helstu sérfræðingar Norðurlandanna og forstöðumenn framkvæmdaaðila almannavarna og ræddu þessi mikilvægu málefni. Þá hefur í formennskutíð Íslands verið lögð áhersla á að stuðla að áframhaldandi samvinnu með Nordefco, hernaðarbandalagi Norðurlandanna, en pólitískur vilji stendur til að efla samstarf milli borgaralegu og hernaðarlegu hliðanna og þar með bæta viðbúnað landanna. Fulltrúar Haga og Nordefco áttu sinn annan sameiginlega fund í ár og  eru sammála um mikilvægi þess að efla áfram frekara samstarf og upplýsingamiðlun.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur stýrt Haga-samstarfinu þetta ár fyrir Íslands hönd:

„Það hefur í senn verið gefandi og lærdómsríkt að stýra Haga-samstarfinu síðasta árið enda standa Norðurlöndin sem aðrir  frammi fyrir breyttri heimsmynd og nýjum áskorunum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Við Íslendingar getum lært margt af öðrum þjóðum þegar kemur að viðbúnaði við hernaði en á móti getum við deilt ómetanlegri þekkingu og reynslu  í borgaralegum viðbrögðum. Haga-samstarfið  er okkur mikilvægt og við höfum í formennskutíð okkar styrkt og eflt norrænt samstarf  með ýmsum hætti.  Það er án efa framfaraskref að tengja borgaralegu hliðina betur við hernaðarlegu hliðina og það höfum við gert með því að stuðla að áframhaldandi samvinnu með  Nordefco.“

Í lok fundarins voru svonefndar Reykjavíkurniðurstöður samþykktar (e. Reykjavík conclusions). Því næst afhenti Jón Gunnarsson keflið til Carl-Oskar Bohlin, sænska ráðherra almannavarna sem tók við formennskunni fyrir hönd Svíþjóðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta