Utanríkisráðuneytið í fjólubláum ljóma á alþjóðadegi fatlaðs fólks
3. desember er alþjóðadagur fatlaðs fólks og því er utanríkisráðuneytið lýst upp í fjólubláum lit, sem er litur alþjóðlegrar réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fjólublái liturinn prýðir ráðuneytið næstu tvo dagana á eftir en þá verður það aftur upplýst í roðagyllta litnum í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.
Alþjóðadagur fatlaðs fólks hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1992. Markmið
dagsins er að efla skilning á málefnum fatlaðs fólks og ýta undir stuðning við reisn, réttindi og velferð þess. Jafnframt er með deginum leitast við að auka vitund um þann ávinning sem hlýst af þátttöku fatlaðs fólks á öllum sviðum samfélagsins: stjórnmála-, félags-, efnahags- og menningarlífs.
Á alþjóðadegi fatlaðs fólks er kastljósinu beint að baráttu fatlaðs fólks og mikilvægu framlagi þess í samfélaginu. Fatlað fólk er um 15 prósent mannkyns samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO eða yfir einn milljarður á heimsvísu. Hér á landi teljast um 57.000 einstaklingar til þessa hóps.