Byggðaþróunarverkefni í Nkhotakota héraði ýtt úr vör
Byggðaþróunarverkefni héraðsstjórnarr Nkhotakota héraðs og íslenskra stjórnvalda gegnum sendiráð Íslands í Lilongve var formlega ýtt úr vör á skólalóð grunnskóla í héraðinu í gær. Við fjölmenna setningarathöfn, að viðstöddum ráðherra sveitarstjórnarmála, þingmönnum og fulltrúum héraðsstjórnarinnar, afhenti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra héraðinu tvo sjúkrabíla, tvo verkefnabíla, tvö þúsund skólaborð, tuttugu fæðingarrúm, auk ómskoðunartækja og súrefnismæla.
„Það eru sannarlega tímamót í langri sögu þróunarsamvinnu Íslands í Malaví nú þegar við hefjum samstarf í nýju héraði, meðal annars fyrir áeggjan stjórnvalda í Malaví. Við fögnum þessu upphafi, ég skynja að væntingarnar eru miklar og við munum ekki una okkur hvíldar fyrr en við höfum séð árangur af þessu samstarfi í þágu íbúa héraðsins,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráherra í ávarpi við setningarathöfnina.
Nkhotakota er annað samstarfshérað Íslands í þróunarsamvinnu í Malaví en Íslendingar hafa undanfarna áratugi beint stuðningi sínum einkum að Mangochi héraði og lagt áherslu á umbætur í grunnþjónustu við íbúa. Samstarfið við héraðsyfirvöld í Nkhotakota byggir á sama verklagi, byggðaþróun og eflingu grunnþjónustu. Veigamesti stuðningurinn er uppbygging fimmtán grunnskóla með áherslu á stuðning við yngsta aldursstigið en einnig verður stutt við heilbrigðiskerfið til að bæta mæðra- og ungbarnaheilsu. Þá verður unnið að betra aðgengi að hreinu vatni, meðal annars með uppbyggingu vatnskerfa og grenndarkrana í sveitum. Ísland mun styðja fjögur sveitarfélög sem liggja við vatnið við að hefta útbreiðslu á kóleru með því að bæta salernis- og hreinlætisaðstöðu.
Nkhotakota hérað er miðsvæðis í Malaví og liggur við strendur Malavívatns. Héraðið er frekar fámennt á malavískan mælikvarða með rúmlega 400 þúsund íbúa.