Uppfærð matsskýrsla um ástand og horfur í þjóðaröryggismálum
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi uppfærða matsskýrslu þjóðaröryggisráðs um ástand og horfur í þjóðaröryggismálum.
Í skýrslunni er m.a. fjallað um hina alvarlegu stöðu sem er komin upp í evrópskum öryggismálum vegna innrásar Rússa í Úkraínu 24. febrúar sl. Þar er rakið með hvaða hætti stríðið í Úkraínu snertir þá áhættuþætti sem teknir eru til skoðunar í matsskýrslu þjóðaröryggisráðs frá árinu 2021.
Stríðið hefur ekki aðeins leitt til mikils mannfalls og tjóns í Úkraínu heldur hafa átökin haft veruleg félags- og efnahagsáhrif í álfunni sem og á heimsvísu. Hin nýja staða í öryggismálum hefur m.a. birst í virkjun varnaráætlana NATO, samþykkt nýrrar grunnstefnu bandalagsins og auknum herviðbúnaði þess.
Í skýrslunni er ástand og horfur í þjóðaröryggismálum metið, einkum með hliðsjón af mikilvægi þess að styrkja áfallaþol samfélagsins. Litið er til aðgerða sem eru í undirbúningi eða hafa verið gerðar og varða m.a. fjármála- og efnahagsöryggi og endurskipulagningu fjármálainnviða, endurbætur og viðhald á varnarmannvirkjum, eftirlit á landamærum, könnun á áfallaþoli mikilvægra innviða og aðgerðir til þess að stuðla að samfelldri virkni þeirra, framkvæmd aðgerða í nýrri aðgerðaáætlun í netöryggismálum og eflingu netöryggissveitar, áhættugreining í tengslum við fjarskiptaöryggi og fjarskiptatengingar við umheiminn og undirbúningur viðbragðsráðstafana ef til rofs á slíkum tengingum skyldi koma. Unnið er að því að koma á skýrri umgjörð um neyðarbirgðir í samvinnu hins opinbera og einkaaðila.
Í skýrslunni er tekið fram að mikilvægt sé að hafa í huga að mikil óvissa er um framvindu stríðsins í Úkraínu og áhrif þess á ýmsum sviðum.
Skýrsla um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum