Reglugerð um meðhöndlun úrgangs vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis í samráð
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur sett til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda drög að nýrri reglugerð um meðhöndlun úrgangs.
Reglugerðin mun koma í stað núgildandi reglugerðar um meðhöndlun úrgangs, nr. 737/2003. Helstu nýmæli í reglugerðinni eru tilkomin vegna breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs, sbr. breytingarlög nr. 103/2021 sem m.a. innleiða endurskoðaða tilskipun Evrópusambandsins 2008/98/EB um úrgang og skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis.
Í reglugerðardrögunum er að finna ítarlegra ákvæði um svæðisáætlanir sveitarfélaga en verið hefur. Þar eru uppfærð töluleg markmið og viðmiðanir um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun og nánari skilyrði eru fyrir undanþáguheimild frá ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs um sérstaka söfnun tiltekinna úrgangstegunda, sem og ákvæði og viðauki um samræmdar merkingar úrgangstegunda.
Umsögnum skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 23. desember næstkomandi.