Kvikmyndasjóður fái 250 milljón króna viðbótarframlag 2023
Við 2. umræðu fjárlagafrumvarps má vænta þess að lagt verði til að 100 milljónir króna verði lagðar til Kvikmyndasjóðs auk þess sem menningar- og viðskiptaráðuneytið mun leggja fram 150 milljón króna viðbótarframlag. Árið 2023 fær Kvikmyndasjóður því 1328,9 milljónir króna til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar hafa hlotið vilyrði eða sjóðurinn er skuldbundinn með samningi.
Viðbótarframlagið á næsta ári kemur til móts við Kvikmyndasjóð vegna breytinga á fjármálaáætlun sumarið 2022. Samkvæmt áætluninni henni féll tímabundið fjárfestingarátak vegna heimsfaraldursins sem sjóðurinn átti að fá árið 2023 niður, eða ári fyrr en gert var ráð fyrir.
Kvikmyndasjóður starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og veitir styrki til handritsgerðar, þróunar verkefna, framleiðslu íslenskra kvikmynda og sjónvarpsefnis og kynningar á íslensku kvikmyndaefni.
„Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið stór skref í að styðja við kvikmyndagerð á Íslandi. Kvikmyndasjóður fékk auka innspýtingu um hátt í milljarð króna vegna heimsfaraldursins, endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð á Íslandi hefur verið hækkað úr 25% í 35%, fjármunir til kvikmyndamenntunar á framhaldsskólastigi voru auknir og langþráðu kvikmyndanámi á háskólastigi var komið á laggirnar svo dæmi séu tekin. Það viðbótarframlag sem kemur í sjóðinn á næsta ári tryggir framgöngu fleiri kvikmyndaverkefna á næsta ári. Ég er stolt af þeim frábæra árangri sem íslensk kvikmyndagerð hefur náð og stolt af þeim stóru aðgerðum sem ráðist hefur verið í til að efla hana enn frekar á skömmum tíma,’’ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Með framsækinni kvikmyndastefnu til 2030 hafa stjórnvöld markað skýra sýn til að tryggja greininni bestu mögulegu aðstæður til að vaxa og dafna – enda hefur Ísland mannauðinn, náttúruna og innviðina til þess að vera framúrskarandi kvikmyndaland. Velta íslensks kvikmyndaiðnaðar nemur nú um 30 milljörðum króna á ársgrundvelli og vel á fjórða þúsund einstaklinga starfa við kvikmyndagerð.