Guðlaug Rakel ráðin tímabundið í verkefni hjá heilbrigðisráðuneytinu
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir fráfarandi framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala hefur verið ráðin til tímabundinna verkefna hjá heilbrigðisráðuneytinu. Verkefnin sem hún mun vinna að snúa m.a. að mönnun í heilbrigðisþjónustu með áherslu á hjúkrun, gerð viðbragðsáætlana og stuðning við innleiðingu Evrópureglugerðar um heilbrigðisvár þvert á landamæri.
Guðlaug Rakel er hjúkrunarfræðingur að mennt með MBA gráðu auk viðbótarnáms í lýðheilsuvísindum. Hún hefur um árabil gegnt ýmsum stjórnunarstörfum m.a. í lyfjageiranum og sem hjúkrunarforstjóri St. Jósefsspítala. Á Landspítala hefur hún verið framkvæmdastjóri yfir þremur sviðum spítalans, þ.e. bráðasviðs (2009-2014) flæðisviðs (2014-2019) og meðferðarsviðs (2019-2022) og um nokkurra mánaða skeið starfaði hún sem settur forstjóri Landspítala.