Hátíðardagskrá í tilefni 100 ára ártíðar Hannesar Hafstein
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bauð í dag til hátíðardagskrár í Safnahúsinu í tilefni af 100 ára ártíð Hannesar Hafstein, fyrsta innlenda ráðherra Íslands.
Forsætisráðherra flutti ávarp í upphafi hátíðardagskrárinnar og Kristján Dagur Jónsson, nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík las ljóð Hannesar Sprettur.
Í ávarpi sínu sagði forsætisráðherra að Hannes Hafstein hafi leitt Ísland inn í nýja öld. Embætti ráðherra Íslands hafi fært honum meiri völd en nokkrum Íslendingi hafði hlotnast öldum saman.
Þá flutti dr. Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, erindið Frjálsar konur í frjálsu landi. Kvenréttindin og Hannes Hafstein. Þar fjallaði hún um mikilvægan þátt Hannesar í baráttunni fyrir kvenréttindum á upphafsárum 20. aldar.
Hannes Hafstein fæddist að Möðruvöllum í Hörgárdal 4. desember 1861. Hann var skipaður fyrsti ráðherra Íslands 1. febrúar 1904 og gegndi embættinu til 31. mars 1909. Hann var einnig ráðherra Íslands 25. júlí 1912 til 21. júlí 1914. Hannes var einnig settur sýslumaður í Dalasýslu, landshöfðingjaritari og sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, bæjarfógeti á Ísafirði, bankastjóri Íslandsbanka og sat um árabil á Alþingi. Hannes lést þann 13. desember 1922.