Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Kanada funduðu
Innrás Rússlands í Úkraínu og áframhaldandi stuðningur Norðurlandanna og Kanada við Úkraínu, samstarf á norðurslóðum og málefni Atlantshafsbandalagsins voru efst á baugi á fjarfundi ríkjanna í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum. Hún greindi meðal annars frá íslenskum vetrarútbúnaði fyrir varnarsveitir Úkraínu sem fluttur var með kanadískri herflugvél áleiðis til Úkraínu í gær og framlagi sem tilkynnt var um í París í dag.
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittust síðast á utanríkisráðherrafundum Atlantshafsbandalagsins og ÖSE í síðasta mánuði, nokkrum dögum eftir að þeir heimsóttu Kænugarð ásamt utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna. Ráðherrarnir áttu þar fundi með ráðamönnum í Úkraínu, meðal annars Volodymyr Selenskí forseta.
„Við höfum öll áhyggjur af komandi vetri í Úkraínu. Pútín sýnir mikla grimmd með því að nota veturinn sjálfan sem stríðsvopn og eyðileggja innviði í Úkraínu. Í heimsókn okkar í Kænugarð upplifðum við sterkt áhrif stríðsins og fengum tækifæri til að sýna úkraínsku þjóðinni samstöðu í eigin persónu,“ segir Þórdís Kolbrún.
Þá sagði hún Atlantshafsbandalagsríkin hafa sent Úkraínu sterk skilaboð um stuðning á fundi sínum í Búkarest fyrir tveimur vikum og sagði það hafa verið mikilvægan áfanga að hafa öll norrænu ríkin fimm við borðið á þeim fundi.
Ráðherrarnir ræddu einnig um fjölþjóðlegt og svæðisbundið samstarf í skugga innrásar Rússa í Úkraínu. „Við erum öll sammála um mikilvægi fjölþjóðakerfisins og höfum sameiginlegra hagsmuna að gæta, meðal annars á norðurslóðum. Við munum áfram leggja okkar af mörkum til að styrkja alþjóðakerfið og virðingu fyrir alþjóðalögum.“
Fundurinn í dag var síðasti fundur í samstarfi utanríkisráðherra Norðurlandanna undir formennsku Noregs, en um áramótin tekur Ísland við formennsku í norrænu samstarfi. Þórdís Kolbrún sagðist munu leggja áherslu á öflugt fjölþjóðakerfi, jafnrétti, mannréttindi og lýðræði á formennskuári Íslands. Áætlað er að sumarfundur norrænu utanríkisráðherranna verði haldinn á Ísafirði í júní á næsta ári.