Hækkun fjárveitinga tryggir heimsóknir barna á Litla-Hrauni
Sérstakar fjárveitingar hafa fengist til þess að leysa vanda þeirra barna sem vilja heimsækja feður sína á Litla-Hrauni. Sérstök heimsóknaraðstaða ætluð börnum sem hefur aðeins verið opin á virkum dögum er nú einnig opin um helgar.
Dómsmálaráðherra lýsti því yfir fyrir skömmu að það væri óviðunandi að börn gætu ekki heimsótt feður sína á Litla-Hrauni í boðlegum aðstæðum og heppilegum tímum.
Með fyrirhugaðri uppbyggingu á Litla-Hrauni, sem hefst á næsta ári, verður síðan öll heimsóknaraðstaða þar bætt og um leið bætt aðstaða fyrir börn til þess að heimsækja föður sinn í fangelsið þar.
Á Hólmsheiði eru nú þegar í boði heimsóknir um helgar, m.a. í sérstakri fjölskylduíbúð. Fangar í lokuðum fangelsum, Hólmsheiði og Litla-Hrauni, geta nú sótt um að fá lengdar fjölskylduheimsóknir í þeirri íbúð.
Eru þessar heimsóknir fyrst og fremst ætlaðar börnum fanga með það að markmiði að viðhalda tengslum barns og foreldris.
Skýrar reglur gilda um heimsóknir í fangelsi og eru þær reglur enn ítarlegri þegar um börn er að ræða.
Reglurnar eru aðgengilegar á vef Fangelsismálastofnunar.