Hoppa yfir valmynd
16. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Sameining héraðsdómstóla lögð til í skýrslu starfshóps

Dómsmálaráðherra hefur hafið undirbúning að sameiningu átta héraðsdómstóla í einn héraðsdómstól. Forsenda sameiningarinnar að mati ráðherra er sú að héraðsdómstóllinn hafi áfram starfsstöðvar á landsbyggðinni þar sem núverandi dómstólar eru staðsettir. Efla þurfi og styrkja starfstöðvarnar með nýjum verkefnum. Með einum héraðsdómstól megi ná fram einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu og bættu eftirliti. Fjárframlög og mannauður dómstólanna muni nýtast betur og aukið hagræði nást við meðferð dómsmála borgurunum til hagsbóta.

Dómsmálaráðherra skipaði starfshóp um sameiningu héraðsdómstólanna í mars 2022 sem hefur nú skilað ráðherra skýrslu.  Megintillögur hópsins eru þær að héraðsdómstólarnir verði sameinaðir í einn Héraðsdóm með yfirstjórn í Reykjavík og átta starfsstöðvar á þeim stöðum sem héraðsdómstólarnir eru nú starfræktir. Störfum verði fjölgað á starfsstöðvum á landsbyggðinni og munu að lágmarki þrír starfa á hverri starfsstöð, þar af að minnsta kosti tveir héraðsdómarar eða einn héraðsdómari og einn dómarafulltrúi.

Lagt er til að dómstjóri og varadómstjóri Héraðsdóms verði skipaðir til fimm ára úr hópi héraðsdómara af stjórn dómstólasýslunnar. Það verði gert að undangengnu hæfnismati í stað kosningar á meðal dómara.

Starfshópurinn setur meðal annars fram þessar röksemdir fyrir breytingunum

  • Stjórnsýsla á fyrsta dómstigi verður einfaldari og öflugri.
  • Með heimildum til að flytja dómsmál á milli starfsstöðva verði tryggð næg verkefni fyrir alla starfsmenn og góð nýting mannauðs.
  • Tryggt verður að þjónusta héraðsdómstólanna utan höfuðborgarsvæðisins skerðist ekki.
  • Með útfærslunni er búið í haginn fyrir stafræna umbreytingu í dómskerfinu þar sem tekið er við öllum dómsmálum í einni sameiginlegri gátt.

 

Starfshópurinn telur að þegar ráðist er í jafn miklar breytingar á uppbyggingu stofnana réttarkerfisins og hér er lagt til sé mikilvægt að gefinn verði rúmur aðlögunartími frá lögfestingu til gildistöku laganna eða allt að tvö ár. Er því lagt til að sameining héraðsdómstólanna taki gildi 1. ágúst 2024 en dómstjóri verði skipaður frá 1. mars 2024 til þess meðal annars að undirbúa sameininguna og starfsemi Héraðsdóms. 

Skýrsla hópsins hefur verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda og gefst þar kostur á að kynna sér efni hennar og koma á framfæri athugasemdum eða ábendingum.

www.samradsgatt.is

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta