Ný lög um leigubifreiðaakstur
Frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur var samþykkt á Alþingi í dag. Markmiðið með lögunum er að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu, neytendum og þjónustuveitendum til hagsbóta. Þá er lögunum ætlað að tryggja að íslenska ríkið uppfylli þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið, auk þess sem lög og reglur um leigubifreiðar eru færð til nútímalegra horfs.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Með samþykkt þessa frumvarps þá er verið að auka fjölbreytni þjónustu, auka val fólks til þess að hafa möguleika á að stunda leigubílaakstur í hlutastarfi og þar með aukast líkurnar á jafnari kynjaskiptingu í stéttinni. Fallið er frá skyldu ríkisins að leigubifreiðastjórar verði að hafa starfið að aðalatvinnu. Þá munu gilda sömu skilyrði fyrir erlendar farveitur og þá sem eru hér á landi. Með nýju lögunum mun aukast sveigjanleiki og frelsi þeirra sem starfa í stéttinni sem og annarra sem vilja stunda í hlutastarfi.“
Ný löggjöf um leigubifreiðar felur það í sér að endurskoða þarf stjórnvaldsfyrirmæli sem sett hafa verið á grunni gildandi laga en gera má ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið snemma á næsta ári. Þá þykir rétt að gefa aðilum sem starfa á leigubifreiðamarkaði ákveðinn aðlögunartíma áður en ný löggjöf öðlast gildi.