Hoppa yfir valmynd
20. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lokaávarp á norrænni ráðstefnu: Brýnt að meta menntun og reynslu innflytjenda og flóttafólks

Atvinnuþátttaka innflytjenda og flóttafólks getur ekki einskorðast við störf sem ekki krefjast sérþekkingar. Brýnt er að tryggja raunveruleg tækifæri á öllum sviðum þar sem innflytjendur og flóttafólk, rétt eins og aðrir, hafa möguleika á að taka þátt, vaxa og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Þetta kom fram í lokaávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna, á ráðstefnu sem fram fór í Osló nýverið um konur sem innflytjendur og flóttafólk á Norðurlöndunum. Ráðstefnan fór fram á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar.

 

 

Guðmundur Ingi áréttaði að Norðurlöndin gætu bætt sig varðandi það að viðurkenna menntun og færni þeirra sem kæmu til landsins. „Hér tel ég að við getum lært hvert af öðru,“ sagði hann. „Sem dæmi má nefna að atvinnuþátttaka innflytjenda er meiri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum en Svíar eru hins vegar bestir í að viðurkenna færni og menntun fólks.“

Ísland tekur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. Guðmundur Ingi undirstrikaði að í málaflokki innflytjenda og flóttafólks hygðist Ísland leggja sérstaka áherslu á atvinnuþátttöku, jafnrétti kynjanna, baráttu gegn einmanaleika og geðheilbrigði.

„Vitundarvakning hefur orðið varðandi geðheilbrigði og við vitum að það er engin heilsa án geðheilsu. Fyrir innflytjendur er þetta mjög mikilvægt mál, sérstaklega fyrir flóttafólk sem hefur neyðst til að flýja, orðið vitni að eða fórnarlömb verstu voðaverka sem hægt er að ímynda sér áður en það kemst burt,“ sagði Guðmundur Ingi.

Hann lagði jafnframt áherslu á mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum og mannauðnum sem innflytjendur og flóttafólk bæru með sér, á sama tíma og áhersla væri lögð á að efla lýðræði á Norðurlöndunum, jafnrétti kynjanna og vinna að friði.

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands:

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta