Hoppa yfir valmynd
27. desember 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Stuðningur við Okkar heim

Willum Þór Þórsson, Þórunn Edda Sigurjónsdóttir félagsráðgjafi, Sigríður Gísladóttir framkvæmdastjóri Okkar heims og Ásmundur Einar Daðason - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra undirrituðu um jólin styrktarsamning við góðgerðasamtökin Okkar heim. Markmiðið er að styðja við úrræði fyrir börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda.

Stuðningurinn verður nýttur til að halda reglulegar fjölskyldusmiðjur á samningstímanum. Áhersla verður á að styðja við börn og fjölskyldur sjúklinga sem hafa lagst inn á móttökugeðdeild Landspítala. Á samningstímanum skal unnið að því að efla starfsfólk móttökugeðdeildar í að skima markvisst eftir þátttakendum úr hópi þeirra sjúklinga sem útskrifast af deildinni og bjóða þeim að taka þátt í fjölskyldusmiðjum. Samningurinn gildir til loka árs 2023.

„Margt sem foreldrar glíma við getur haft djúpstæð áhrif á börn þeirra. Beina þarf sjónum að umhverfi þeirra s.s. fjölskylduaðstæðum og stuðla að því að áskoranir aðstandenda hafi sem minnst skaðleg áhrif á börnin,“ segir Ásmundur Einar, mennta- og barnamálaráðherra.

„Ég er ánægður með þennan samning enda verkefnið mikilvægt. Á  heimsvísu er áætlað að eitt af hverjum fimm börnum eigi foreldra með geðrænan vanda. Það er af mörgum ástæðum mikilvægt að styðja þennan hóp. Meðal annars hefur það mikilvægt forvarnargildi og dregur úr líkum á að geðrænar áskoranir flytjist milli kynslóða“ segir Willum Þór heilbrigðisráðherra.
Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda að auka snemmtækan stuðning við börn og barnafjölskyldur og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Hann fellur einnig að markmiðum þingsályktunar um geðheilbrigðisstefnu sem Alþingi samþykkti í júní síðastliðnum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta