Hoppa yfir valmynd
27. desember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Verkefni um sérhæfða þjónustu í geðhjúkrunarrýmum Áss og Fellsenda framlengt

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja um eitt ár tilraunaverkefni sem miðar að því að styrkja faglega geðheilbrigðisþjónustu við einstaklinga í geðrýmum á hjúkrunarheimilunum Fellsenda í Dölum og Ási í Hveragerði. Verkefnið hófst fyrir rúmu ári og hefur að mati aðstandenda þess skilað góðum árangri.

Efnt var til verkefnisins þar sem fyrir lá mat embættis landlæknis um að styrkja þyrfti faglega geðheilbrigðisþjónustu á heimilunum þar sem búa einstaklingar með flókna þjónustuþörf á þessu sviði. Samtals eru 66 geðhjúkunarrými á Fellsenda og í Ási.

Í Ási hefur verkefnið byggst á samstarfi við geðheilsuteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Teymið hefur haldið sérsniðin námskeið fyrir starfsfólk sem sinnir notendum í geðrýmum og einnig veitt starfsfólkinu handleiðslu. Enn fremur hafa heimilismenn í geðrýmum Áss notið þjónustu og stuðnings iðjuþjálfa með það markmið að auka virkni og þátttöku þeirra í samfélaginu.

Á Fellsenda hefur verið lyft grettistaki varðandi fræðslu og þjálfun starfsfólks. Þar hefur verkefnið verið unnið í samvinnu við Fræðslumiðstöð Vesturlands og ýmsa fagaðila í geðheilbrigðisþjónustu. Starfsfólk Fellsenda hefur meðal annars fengið fræðslu um fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð við krefjandi hegðun íbúa, fræðslu um geðsjúkdóma og námskeið í skyndihjálp. Stefnt er að því að ráða starfsmann að Fellsenda til að styðja íbúa til aukinnar virkni og þátttöku í samfélaginu.

Alls verður 15 milljónum króna varið til þessa verkefnis á næsta ári. Stefnt er að því að þróa það enn frekar, m.a. með fjölbreyttari fræðslu fyrir starfsfólk, s.s. námskeiðum í hugrænni atferlismeðferð og fleiri viðfangsefnum. Markmiðið er sem fyrr að efla þekkingu og færni starfsfólks til að mæta þörfum einstaklinga með flóknar geðrænar og félagslegar áskoranir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta