Álag á bráðaþjónustu og viðbrögð til að mæta því
Heilbrigðisráðuneytið fundaði í dag með fulltrúum Landspítala og helstu aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og á heilbrigðisstofnunum í Kraganum vegna álags á bráðaþjónustu þessa dagana. Rætt var um leiðir til að bregðast við stöðunni og farið yfir það helsta sem hefur verið gert í því skyni að undanförnu.
Staðan á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum er þung um þessar mundir, einkum vegna útbreiddra veirusýkinga í öndunarfærum.
Þjónusta heilsugæslustöðva
Heilsugæslan vekur athygli á því að þeir sem þurfa á þjónustu að halda geta haft samband í síma 513 - 1700 eða í síma 1700 og fengið þar ráðgjöf og leiðbeiningar. Þótt aðgengi að skráðum tímum í heilsugæslu sé takmarkað fá allir þar þjónustu sem þurfa. Ef erindi er brýnt getur fólk leitað beint til heilsugæslustöðvanna á dagvinnutíma og fengið þjónustu. Einnig eru síðdegisvaktir á flestum stöðvum og Læknavaktin á Háaleitisbraut er opin virka daga frá 17.00 - 22.00 og um helgar frá kl. 9.00 - 22.00. Mikilvægt er að fólk taki tillit til mikils álags, nýti sér þjónustusímana og upplýsingar á heilsuvera.is og leiti því aðeins til heilsugæslunnar þegar nauðsyn krefur.
Landspítali
Ljóst er að samstillt átak allra aðila innan heilbrigðisþjónustu þarf til að tryggja örugga þjónustu við sjúklinga. Landspítali hefur opnað nýja legudeild á spítalanum og stendur nú í ströngu við að manna deildina með heilbrigðisstarfsmönnum. Er þess óskað að þeir sem áhuga og vilja hafa á að leggja lið og taka að sér störf á spítalanum hafi samband með tölvupósti á netfangið [email protected]. Vöntun er á starfsfólki næstu daga.
Landspítali hefur ákveðið að takmarka heimsóknir næstu daga við einn einstakling til hvers sjúklings daglega á skilgreindum heimsóknartímum. Ákvörðunin er tímabundin enda ljóst að hún er íþyngjandi og verður hún endurskoðuð eins fljótt og auðið er. Spítalinn beinir því jafnframt til aðstandenda sem hafa einkenni veirusýkingar, s.s. kvef, hósta eða önnur flensueinkenni, að heimsækja ekki sjúklinga.
Aðgerðir til að efla þjónustu utan sjúkrahúsa
Heilbrigðisráðuneytið hefur undanfarið unnið markvisst að því að styrkja öll stig heilbrigðisþjónustunnar. Með góðri samvinnu við rekstraraðila hjúkrunarheimila hefur hvíldarrýmum verið breytt í tímabundinn hjúkrunarrými til að liðka fyrir útskriftum sjúklinga af Landspítala. Endurhæfingarrýmum hefur verið fjölgað, bæði á Eir og Sólvangi og viðbragðsteymi um bráðaþjónustu hefur lagt til ýmsar aðgerðir til að efla bráðaþjónustu um allt land og eru sumar þeirra þegar komnar til framkvæmda.