Hoppa yfir valmynd
28. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Sanngirnisbótafrumvarp vegna Hjalteyrar lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram í Samráðsgátt drög að frumvarpi til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vistheimilinu á Hjalteyri í Arnarneshreppi. Frumvarpið gerir kleift að taka á málum einstaklinga sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi þegar þeir voru vistaðir sem börn á heimilinu á tímabilinu 1972-1979. Frumvarpið heimilar stjórnvöldum greiðslu sanngirnisbóta til þeirra sem urðu fyrir misgjörðum á heimilinu, í samræmi við þá stefnu sem var afmörkuð sanngirnisbótum frá upphafi.

Vistheimilið á Hjalteyri í Arnarneshreppi virðist með réttu hafa átt að hljóta rannsókn vistheimilanefndar á sínum tíma. Skýrsla starfshóps á vegum dómsmálaráðuneytisins og fyrri umfjöllun vistheimilanefndar styðja við þær frásagnir sem hafa komið upp undanfarið, þ.e. að einstaklingar sem þar voru vistaðir kunni að hafa orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi. Sú staða réttlætir að gerðar séu upp misgjörðir á heimilinu með greiðslu sanngirnisbóta, og er talið rétt að það verði gert með sambærilegum hætti og gagnvart þeim sem voru vistaðir á stofnunum fyrir fötluð börn. Þykja sjónarmiðin sem upphaflega lágu til grundvallar framkvæmd sanngirnisbóta og stefnan sem hefur verið afmörkuð í þessum efnum styðja enn frekar við þá niðurstöðu.

Ekki er talin ástæða til að leggja í jafn ítarlegar og tímafrekar úttektir á heimilinu og gerðar voru í fyrri tilvikum. Það er því ekki talin þörf á því að gera skýrslu vistheimilanefndar eða aðra sambærilega skýrslu að skilyrði fyrir greiðslu bóta. Litið er svo á að nægileg vitneskja sé fyrir hendi um tíðaranda, viðhorf, uppbyggingu og starfsemi vistheimilisins og um það sem fór úrskeiðis eða betur hefði mátti fara. Með skýrslum vistheimilanefndar hafi farið fram ákveðið uppgjör við fortíðina og skapast grundvöllur til að taka með aðgengilegri og einfaldari hætti en áður afstöðu til erinda frá þeim sem voru vistuð á barnsaldri á vistheimilinu á Hjalteyri og telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð og ofbeldi í þeirri vistun.

Nauðsynlegt er að lögfesta heimildir stjórnvalda til að ljúka uppgjöri sanngirnisbóta við einstaklinga sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á vistheimilinu á Hjalteyri, enda séu bótakröfurnar fyrndar og greiðsla bóta því umfram lagaskyldu. Talið er nauðsynlegt að mæla fyrir um sértækar heimildir til að greiða sanngirnisbætur vegna misgjörða á heimilinu þar sem gildissvið laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum fyrir fötluð börn, takmarkast við stofnanir sem voru starfræktar á vegum hins opinbera fyrir fötluð börn. Vistheimilið á Hjalteyri fellur utan við gildissvið laganna og í ljósi þess að umrædd lög falla brott 31. desember 2023, þykir heppilegra að lögfesta sérlög sem varða heimilið á Hjalteyri.

Stefnt er að því að ljúka megi samfélagslegu uppgjöri vegna vistheimilisins á Hjalteyri með aðgengilegum og einföldum hætti, sem gæti orðið til verulegra hagsbóta fyrir þá einstaklinga sem málið varðar þar sem unnt yrði að skoða og afgreiða mál þeirra nokkuð greiðlega.

Drög að frumvarpinu hafa verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda. 

Umsagnarfrestur er til 11. janúar 2023.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta