Hoppa yfir valmynd
30. desember 2022 Utanríkisráðuneytið

Fréttaannáll utanríkisráðuneytisins árið 2022

Árið 2022 hefur verið viðburðurðaríkt í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Líkt og fram kemur í meðfylgjandi fréttaannál setti árásarstríð Rússlands í Úkraínu mark sitt á árið með afgerandi hætti. Rekja má ríflega þriðjung færslna annálsins með beinum hætti til stríðsins og eru þá ótaldir tvíhliða fundir utanríkisráðherra þar sem málefni Úkraínu voru í brennidepli.

Rússum var úthýst úr svæðisbundnu samstarfi á fyrri hluta árs og til viðbótar við móttöku fólks frá Úkraínu í viðkvæmri stöðu og fjárframlaga Íslands til aðstoðar Úkraínu hafði Ísland í ágúst frumkvæði að sprengjueyðingarverkefni í landinu þegar fram í sækir. Þá heimsótti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt starfssystkinum sínum frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum Kænugarð í nóvember þar sem þau hittu meðal annars Selenskí Úkraínuforseta.

Á meðal þeirra viðburða sem einnig settu svip sinn á árið eru varnaræfingin Norður-Víkingur sem fram fór í Hvalfirði í apríl og fundur varnarmálaráðherra Norðurhópsins í Reykjavík í júní. Þá hófst formennska Íslands í Evrópuráðinu í nóvember og tilkynnt var um leiðtogafund ráðsins á Íslandi í maí næstkomandi. Mikilvæg ályktun Íslands og Þýskalands um ástand mannréttinda í Íran var samþykkt á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í nóvember og utanríkisráðherra fór í sína fyrstu vinnuheimsókn til Malaví í desember, elsta samstarfsríkis Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Utanríkisráðuneytið óskar landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta