Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2023 Forsætisráðuneytið

Sérfræðingar vinna greinargerðir um kafla stjórnarskrárinnar sem fjalla um Alþingi, dómstóla og mannréttindi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur falið fjórum sérfræðingum að taka saman greinargerðir um þá kafla stjórnarskrárinnar sem fjalla um Alþingi, dómstóla og mannréttindi.

Sérfræðivinna þessi er í samræmi við það hvernig ákveðið var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna að halda áfram þeirri heildstæðu yfirferð yfir stjórnarskrána sem hófst á síðasta kjörtímabili. Þá voru meðal annars tekin fyrir ákvæði um auðlindir og umhverfismál og kafli um handhafa framkvæmdarvalds.

Þórður Bogason hæstaréttarlögmaður mun vinna greinargerð um IV. kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um Alþingi. Þær breytingar sem orðið hafa á kaflanum frá lýðveldisstofnun snúa einkum að afnámi deildaskiptingar Alþingis. Á þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á starfsháttum Alþingis og töluverð þróun alþjóðlega er varðar starfsemi þjóðþinga.

Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, mun vinna greinargerð um V. kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um dómstóla. Kaflinn hefur lítið breyst frá lýðveldisstofnun en síðan þá hefur dómskerfið þróast auk þess sem mikil þróun hefur verið á alþjóðavettvangi varðandi meðferð dómsvalds í réttarríki.

Róbert Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fv. forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, og Valgerður Sólnes, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, munu vinna greinargerð um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Við endurskoðun mannréttindakaflans 1995 var megináhersla lögð á að festa í sessi fyrstu og annarrar kynslóðar mannréttindi, þ.e. borgaraleg, stjórnmálaleg, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Síðan þá hefur alþjóðleg réttarþróun á sviði mannréttinda orðið til þess að dýpka inntak ýmissa mannréttindahugtaka og skilning á samspili þeirra innbyrðis.

Gert er ráð fyrir því að sérfræðingarnir skili greinargerðum sínum til forsætisráðuneytisins eigi síðar en 1. september nk. Munu þeir í vinnu sinni taka mið af þeirri stjórnarskrárvinnu sem fram hefur farið hér á landi frá 2005.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta