Áfram öflugt íþróttastarf með stuðningi stjórnvalda
Mennta- og barnamálaráðherra hefur úthlutað 450 milljónum króna til íþróttahreyfingarinnar vegna tekjutaps af völdum heimsfaraldurs. Um er að ræða lokaúthlutun stjórnvalda með það að markmiði að viðhalda öflugu íþróttastarfi hér á landi.
Úthlutunin byggir á tillögum vinnuhóps Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands út frá skilyrðum mennta- og barnamálaráðuneytisins. Skilyrði stuðnings var tekjutap við það að fella tímabundið niður starfsemi og/eða kostnaðarauki vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Opnað var fyrir umsóknir í sumar.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:
„Heimsfaraldur hafði hvað mestu áhrif á íþrótta- og æskulýðsstarf hér á landi. Sóttvarnaaðgerðir leiddu ýmist til kostnaðarauka eða tekjutaps við það að fella niður viðburði. Standa þarf vörð um þetta mikilvæga starf. Með stuðningnum nú lýkur mótvægisaðgerðum stjórnvalda og stendur íþróttahreyfingin sterk eftir fordæmalaust mótlæti.“
Styrkir til íþróttafélaga og deilda við lokaúthlutun nú voru veittir fyrir kostnaðarauka og tekjutap frá júlímánuði 2021 til og með febrúar 2022. Styrkir til íþróttahéraða og sérsambanda voru fyrir lengra tímabil eða frá miðju ári 2020 til og með febrúar 2022 og voru um 70% af lokaúthlutun. Þá gafst æskulýðsfélögum sem og öðrum samtökum með samning við mennta- og barnamálaráðuneytið kostur á að sækja um stuðning vegna tímabilsins frá júlímánuði 2021 til og með febrúar 2022 á sömu forsendum.
Sambærileg úthlutun á 450 m.kr. átti sér stað vorið 2020 og á 300 m.kr. í árslok sama ár. Þá fengu íþróttafélög 1.638 m.kr. á grundvelli laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Að auki runnu 100 m.kr. árið 2021 til íþrótta- og tómstundafélaga vegna viðburða sem féllu utan við framangreind úthlutunartímabil og til sérstakra verkefna sem talin voru brýn fyrir starfsemi viðkomandi félaga.