Gjaldskrárbreytingar í heilbrigðisþjónustu um áramót
Greiðslur til sjúkratryggðra og gjöld sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu hækkuðu almennt 1. janúar sl. um 10,6% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga. Þannig hækkuðu meðal annars sjúkradagpeningar og bætur slysatrygginga um 10,6%. Aftur á móti helst greiðsluþáttaka vegna lyfjakostnaðar óbreytt ásamt komugjöldum í heilsugæslu. Einnig er haldið áfram með lækkun greiðsluþáttöku lífeyrisþega vegna tannlæknaþjónustu.
Óbreytt komugjöld í heilsugæslu endurspegla vilja stjórnvalda til að jafna aðgengi að heilbrigðiskerfinu þar sem heilsugæslan er oftast fyrsti viðkomustaðurinn. Þetta gjald helst því óbreytt og sem fyrr greiða börn, aldraðir og öryrkjar ekkert komugjald í heilsugæslu. Engar breytingar voru heldur gerðar á fjárhæðum sem kveða á um hámarksgreiðslur sjúkratryggðra vegna lyfjakostnaðar samkvæmt greiðsluþátttökukerfi lyfja.
Lífeyrisþegar greiða minna fyrir tannlæknaþjónustu
Greiðsluþátttaka lífeyrisþega fyrir tannlæknaþjónustu hefur verið lækkuð markvisst síðustu ár. Áfram er haldið á þeirri braut. Þann 1. janúar lækkaði hlutur lífeyrisþega í tannlæknakostnaði úr 37% í 31%. Áætlað er að aukin útgjöld sjúkratrygginga vegna þessarar breytingar nemi um 270 milljónum króna á ársgrundvelli.
Ýmis umbótavinna er í gangi í heilbrigðisráðuneytinu varðandi vottorð, tilvísanir og fleira. Gætu sumar reglugerðir því tekið breytingum aftur síðar á árinu. Hér á eftir er listi yfir þær reglugerðir sem vísað er til í fréttinni, listinn er ekki tæmandi yfir þær reglugerðir sem tóku breytingum nú um áramótin:
- Reglugerð nr. 1551/2022 um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu
- Reglugerð um (14.) breytingu á reglugerð nr. 1025/2008 um sjúkradagpeninga
- Reglugerð um (12.) breytingu á reglugerð nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar
- Reglugerð nr. 1514/2022 um fjárhæðir bóta slysatrygginga almannatrygginga fyrir árið 2023