Friður eitt helsta áhersluefnið í formennsku Íslands
Formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 var ýtt úr vör á upphafsviðburði í Norræna húsinu í dag en hún hófst formlega á nýju ári. Yfirskrift formennskunnar er „Norðurlönd - afl til friðar“ og vísar til þeirrar áherslu sem lögð er á frið sem undirstöðu þeirra sameiginlegu gilda sem Norðurlönd byggja samvinnu sína á: mannréttindi, lýðræði og velferð.
Í ávarpi sínu kom Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra inn á þessi sameiginlegu gildi sem nauðsynlegt er fyrir Norðurlönd að standa vörð um, sér í lagi nú eftir innrás Rússlands í Úkraínu, og undirstrikaði hvers vegna áhersla var lögð á frið í formennskutíð Íslands.
„Styrkur norræns samstarfs felst í því að við deilum gildum; gildum sem eru undir miklum þrýstingi víða um heim. Þetta eru lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, jöfnuður. Og í formennskuáætlun sinni leggur Ísland áherslu á frið sem er frumforsenda þess að við getum unnið að öllum þeim markmiðum sem leiða af þessum gildum“ sagði forsætisráðherra meðal annars í máli sínu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson samstarfsráðherra Norðurlanda kynnti formennskuáætlun Íslands í máli sínu og lagði áherslu á mikilvægi norræns samstarfs fyrir Ísland og þá styrku pólitísku fótfestu sem Norðurlöndin veita hvort öðru.
„Norrænt samstarf hefur skilað árangri á mörgum sviðum og má þar nefna jafnrétti kynjanna, umhverfismál og almenna velferð í samfélögum okkar,“ sagði Guðmundur Ingi og bætti því við að Norðurlöndin væru okkar helstu bandamenn á alþjóðavettvangi til viðbótar við það að vera sameiginlegur vettvangur fyrir menningu og listir, menntun og rannsóknir.
Áherslur Íslands á formennskuárinu eru fjórar og sem fyrr verða í brennidepli þær þrjár áherslur sem þegar eru í framkvæmdaáætlun framtíðarsýnarinnar 2030 um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Í formennskutíð Íslands verður svo fyrrnefnd áhersla lögð á frið sem haldið verður á lofti með ýmsum hætti á árinu.
Í tengslum við formennskuna fara fram fjölmargir norrænir og alþjóðlegir fundir og viðburðir á Íslandi. Fjöldi ráðherrafunda verða haldnir hérlendis á árinu og þrjár stórar alþjóðlegar ráðstefnur. Karen Ellemann, nýr framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, var viðstödd kynninguna og vakti athygli á því að Ísland er í lykilstöðu, eins og árið 2019, til þess að marka stefnu norræns samstarfs til framtíðar.
Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.
Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.
Nánar um Norrænu ráðherranefndina.
Norðurlönd - afl til friðar - formennskuáætlun Íslands 2023.