Sigurður H. Helgason er nýr forstjóri Sjúkratrygginga Íslands
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Sigurð H. Helgason í embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands frá 1. febrúar næstkomandi. Skipunin er gerð á grundvelli heimildar í 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og Sigurður fluttur úr embætti skrifstofustjóra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Sigurður tekur við embættinu af Maríu Heimisdóttur sem hefur gegnt embætti forstjóra frá árinu 2018 en hefur nú ákveðið að láta af störfum.
Sjúkratryggingar Íslands eru ein af grunnstoðum heilbrigðiskerfisins í ljósi þeirra viðamiklu verkefna sem stofnuninni eru falin með lögum. Hún annast framkvæmd sjúkratrygginga og kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins í samræmi við stefnu ráðherra á hverjum tíma. Eftirlit með gæðum og árangri keyptrar þjónustu er einnig á hendi stofnunarinnar, auk fleiri verkefna.
„Það er stórt og ábyrgðarmikið verkefni að stýra þessari stofnun. Á þessum tímamótum færi ég Maríu Heimisdóttur mínar bestu þakkir fyrir vel unnin störf og óska nýjum forstjóra Sigurði Helgasyni velfarnaðar í starfi“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Sigurður hefur stýrt skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2013 og jafnframt verið staðgengill ráðuneytisstjóra. Undir skrifstofuna falla öll helstu viðfangsefni sem setja ramma um stjórnun og rekstur ríkiskerfisins, þ.m.t. framkvæmd fjárlaga, fjárstýring, reikningsskil og rekstrarmálefni ríkisins, lánamál, umbótastarf, stafræn umbreyting, eigna- og framkvæmdamál, eignarhald félaga og stefnumörkun í mannauðs- og kjaramálum.
Sigurður hefur áður gegnt embætti aðstoðarframkvæmdarstjóra Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn þar sem hann var yfirmaður fjármála og stjórnsýslu, starfi sérfræðings í umbótum í opinberum rekstri hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) í París og starfi sérfræðings í fjármálaráðuneytinu. Þá stýrði hann um árabil ráðgjafarfyrirtækinu Stjórnháttum sem veitti stjórnvöldum margháttaða ráðgjöf um umbætur og skipulagsbreytingar í opinberri starfsemi.
Sigurður hefur í tengslum við störf sín unnið að fjölþættum verkefnum á sviði heilbrigðismála. Meðal annars tók hann virkan þátt í undirbúningi breytinga sem leiddu til laga um sjúkratryggingar og stofnunar Sjúkratrygginga Íslands árið 2008. Þá situr hann í stjórn Nýs Landspítala ohf. sem annast uppbyggingu á nýjum innviðum Landspítala.
Sigurður er með meistaragráðu í stjórnsýslu frá Roskilde Universitet, með sérhæfingu í heilsuhagfræði og stjórnun heilbrigðisþjónustu.