Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2023 Heilbrigðisráðuneytið

780 milljónir í sérstök framlög til geðheilbrigðisþjónustu í kjölfar Covid-19

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið hvernig háttað verði úthlutun rúmlega 260 milljóna króna af fjárlögum þessa árs til ýmissa heilsufarslegra aðgerða til að vinna gegn neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Fjármagnið verður nýtt til að efla þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu og efla skólaheilsugæslu. Framlagið er veitt tímabundið til þriggja ára og nemur í heild rúmum 780 milljónum króna.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur bent á að samfélagsleg áföll á borð við heimsfaraldur reyni almennt á geðheilsu einstaklinga og geðheilbrigði þjóða. Þetta eigi sérstaklega við um viðkvæma hópa samfélagsins s.s. ungmenni og fólk með geðraskanir. Líklegt er að langtímaafleiðingar af heimsfaraldri á geðheilbrigði barna og ungmenna muni birtast enn frekar á næstu árum og því er áframhaldandi styrking þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna á landsvísu nauðsynleg.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra um úthlutun aukins fjármagns til geðheilbrigðisþjónustu er í samræmi við þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum og skiptist fjármagnið á eftirfarandi hátt: 

94 milljónir króna til Geðþjónustu Landspítala

Geðþjónusta Landspítala fær 94 milljónir kr. árlega næstu þrjú ár. Þremur fjórðu hlutum fjármagnsins skal varið til að styrkja þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með t.d. alvarlegt þunglyndi, kvíða, átröskun, áfallastreituröskun eða aðra alvarlega geðsjúkdóma. Fjármagninu sem eftir stendur  skal varið til að þróa stuðning við geðheilsuteymi heilbrigðisstofnana um allt land, annars vegar þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu sem þau veita og hins vegar fyrsta stigs þjónustu á þeirra vegum til að stuðla að samfelldari og skilvirkari þjónustu við notendur og aðstandendur þeirra.

70 milljónir króna til BUGL og BUG

Barna- og unglingageðdeildir Landspítala (BUGL) fær 55 milljónir kr. árlega næstu þrjú ár til að mæta þörfum barna og ungmenna fyrir tímabæra þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu og halda biðtíma eftir þjónustu innan viðmiðunarmarka. Teymi barna- og unglingadeildar Sjúkrahússins á Akureyri fær í sama skyni 15 milljónir kr. árlega næstu þrjú ár.

96 milljónir króna til skólaheilsugæslu

Varið verður 96 milljónum króna á næsta ári til að efla og innleiða skólaheilsugæslu í framhaldsskólum árið 2023 og verður sama fjárhæð veitt til verkefnisins árin 2024 og 2025. Verkefnið á sér meðal annars stoð í geðheilbrigðisstefnu þar sem áhersla er lögð á geðræktarstarf og forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í skólum.

Heilsuvernd skólabarna er á ábyrgð heilsugæslustöðva í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir sig og skal veitt í skólum í nánu samstarfi og samvinnu við skólayfirvöld og félagsþjónustu á hverjum stað. Við innleiðingu skólaheilsugæslu með auknu fjármagni á næstu þremur árum verður byggt á fenginni reynslu og verkefnið þróað áfram á landsvísu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta