Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2023 Matvælaráðuneytið

Bráðabirgðatillögur kynntar í stefnumótun um sjávarútveg

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Eggert Benedikt Guðmundsson formaður starfshópsins Aðgengi á kynningarfundi bráðabirgðatillagna. - myndSigurjón Ragnar

 

Starfshópar í verkefninu Auðlindin okkar hafa skilað bráðabirgðatillögum til matvælaráðuneytisins. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, skipaði samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu og fjóra starfshópa þann 31. maí sl.

Markmiðið með verkefninu Auðlindin okkar hefur frá byrjun verið að auka sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið þar sem gætt er að umhverfissjónarmiðum, þar sem verðmætin eru hámörkuð og þar sem dreifing verðmætanna er með sem sanngjörnustum hætti. Að auka sátt um sjávarútveg á Íslandi.

Nú eru starfshópar Auðlindarinnar okkar hálfnaðir með sína vinnu og tímabært að birta bráðabirgðaniðurstöður þeirra. Hóparnir hafa fundað með fjölda fólks, sérfræðingum, hagaðilum og almenningi, aflað fjölþættra gagna og lagt fram tilgátur og rannsóknaspurningar.

Tillögurnar eru 60, sumar þarf að útfæra enn frekar en aðrar eru lagðar fram til að skapa umræðu og kalla fram viðbrögð í samfélaginu, á Alþingi, hjá hagsmunaaðilum og sem víðast. Sjávarútvegurinn kemur öllum við, enda undirstöðuatvinnugrein í íslensku efnahagslífi. Því er mikilvægt að umræðan verði opin og sjónarmiðin sem fjölbreyttust. Tillögurnar eru bráðabirgðatillögur starfshópanna Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri.

Margar tillagnanna eru skýrar og til þess fallnar að efla samstöðu og skerpa sýn á málaflokkinn meðan aðrar munu kalla á sterk og ólík viðbrögð. Framundan er mikilvægur ferill í því skyni að byggja enn betur undir lokatillögur hópanna sem verður skilað í maí á þessu ári. Áhersla er lögð á að tillögurnar eru í vinnslu og að ekki er um endanlega  afurð að ræða

Tillögurnar taka á ólíkum þáttum greinarinnar; fiskveiðistjórnun, rannsóknum, vísindum, ráðstöfun aflamarks, menntun, umgengni, starfsskilyrðum og markaðssetningu.

Hingað til hefur verkefnið verið unnið samkvæmt áætlun og er gert ráð fyrir að lokaniðurstöður líti dagsins ljós í vor, lagafrumvörp verði tilbúin til kynningar í árslok og þau verði lögð fram fullbúin á vorþinginu 2024.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að ferlið sé opið og gagnsætt og að sem flestar raddir heyrist á öllum stigum.

„Það hefur verið mín staðfasta trú að nýrrar nálgunar væri þörf gagnvart þeim áskorunum og tækifærum sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir og þar með íslenskt samfélag. Mikill metnaður hefur verið lagður í að vinnan sé þverfagleg og allt ferlið eins opið og verða má“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. „Ég tel þetta verkefni í senn tímabært og mikilvægt..

Tillögurnar verða ræddar í samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu, í ríkisstjórn, á opnum fundum auk þess sem þær verða sendar fjölmiðlum og birtar á samráðsgátt stjórnvalda.
Bráðabirgðatillögur starfshópanna má nálgast hér.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging
14. Líf í vatni
17. Samvinna um markmiðin
12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta