Fléttan: Dicino Medical Technologies innleiðir fjöltyngt forskráningarkerfi sjúklinga
Dicino Medical Technologies, í samstarfi við Heilsugæsluna Höfða, hlýtur styrk að upphæð 5 m.kr. Að baki fyrirtækinu stendur teymi sem hefur fjölþættan bakgrunn og reynslu af læknavísindum og viðskiptum auk vöruþróunar fyrir bæði innlendan og erlendan markað.
Verkefnið snýr að innleiðingu forskráningarkerfis sem fyrirtækið hefur þróað undanfarin ár á Heilsugæsluna Höfða, en kerfið er fjöltyngt. Með þessari tækni færist hluti skráningarvinnu frá læknum yfir á sjúklinga. Lausnin notar nútímatækni og gervigreind til að spyrja sjúklinga læknisfræðilegra spurninga út frá núverandi og mögulega tengdum einkennum sjúklingsins. Að því loknu nýtir lausnin svör við spurningum til að skrifa faglega læknaskýrslu með ýtarlegum upplýsingum um ástand sjúklings. Skýrslan er svo sjálfkrafa send í það skráningarkerfi sem viðkomandi læknir notar. Viðkomandi lausn stingur ekki upp á greiningu eða meðferð heldur er markmiðið hennar að auka upplýsingagjöf um ástand sjúklings og ástæðu heimsóknar til þess að auðvelda læknum að greina sjúklinga og ákveða meðferð.
Áætlað er að í kjölfar innleiðingar Dicino tækninnar skapist verðmæti fyrir heilbrigðisstofnanir, starfsfólk og sjúklinga í formi tímasparnaðar, lægri rekstrarkostnaðar, gæðastjórnunar, bætts verklags og þjónustu auk minna álags á heilbrigðisstarfsfólk. Þess má geta að allt að 50% vinnutíma heilbrigðisstarfsfólks og lækna fer í skráningarvinnu, sem kemur niður á tíma og þjónustu við sjúklinga.
Markmið verkefnisins er að innleiða og prófa Dicino lausnina á Heilsugæslunni Höfða áður en farið verður í útboð fyrir fleiri heilbrigðisstofnanir hér á landi, með stuðningi frá Embætti Landlæknis.
Átta verkefnum hefur verið boðið að ganga til samninga um styrki úr Fléttunni. Fléttan eru styrkir sem veittir eru til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins almennt. Áhersla var lögð á að úthluta styrkjum sem styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðistækni, -vörum og -þjónustu. Styrkveiting er háð því skilyrði að umsækjendur eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir verkefnin átta sem hlotið hafa styrk úr Fléttunni á vef sínum næstu daga.