Aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar til umsagnar í Samráðsgátt
Drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028 hafa verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda og eru opin almenningi til umsagnar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði í mars 2022 starfshóp um mótun tillögu um framtíðarstefnu fyrir Barnamenningarsjóð Íslands. Starfshópnum var jafnframt falið að meta samlegðaráhrif eða aukið samstarf sjóðsins við barnamenningarverkefnið List fyrir alla. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til forsætisráðherra nú í janúar og í framhaldi voru þær kynntar í ríkisstjórn.
Tillögurnar grundvallast m.a. á þingsályktun um menningarstefnu íslenska ríkisins frá 2013 og Menningarsókn – aðgerðaáætlun í menningarmálum til ársins 2030 en barnamenning er meðal megináherslna beggja stefna.
Tillaga starfshópsins er nánar útfærð í fyrrnefndum drögum að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar. Tillagan byggir á þeirri framtíðarsýn að menningarlæsi, menningarþátttaka og miðlun menningararfs verði veigamikil atriði í uppvexti og skólastarfi barna og ungmenna og að starfsemi á þessu sviði endurspegli fjölbreytta samsetningu þjóðarinnar og þá alþjóðlegu menningu sem býr í íslensku samfélagi.
Meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar verði:
- Að auka samhæfingu og efla stefnumótun á sviði barnamenningar.
- Að auka framboð lista, menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni í skólastarfi.
- Að festa í sessi starfsemi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla og Barnamenningarsjóðs Íslands.
Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, stjórn Barnamenningarsjóðs Íslands, barnamenningarverkefninu List fyrir alla, Bandalagi íslenskra listamanna auk fulltrúa forsætisráðherra sem stýrði vinnunni.
Drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028