Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra kynnti áherslur Íslands í Evrópuráðinu fyrir fastafulltrúum ÖSE

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Kristín A. Árnadóttir sendiherra Íslands í Vín og fastafulltrúi gagnvart ÖSE. - myndMicky Kroell/OSCE

Staða Evrópu í kjölfar innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu og mikilvægi þess að Evrópuráðið og ÖSE standi vörð um lýðræðislegar stofnanir, alþjóðalög og mannréttindi voru í brennidepli í ávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á fundi fastafulltrúa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín í dag. Þórdís Kolbrún var þar til þess að kynna formennskuáætlun Íslands í Evrópuráðinu en venja er að formennskuríki kynni áherslur sínar á fundi fastafulltrúa ÖSE. 

Þórdís Kolbrún segir að þó svo að stofnanirnar tvær, ÖSE og Evrópuráðið, séu ólíkar í eðli sínu þá starfi þær að sameiginlegum markmiðum um að stuðla að friði, stöðugleika og öryggi í Evrópu og víðar. „Innrás Rússlands brýtur svo augljóslega í bága við allt sem þessar tvær helstu evrópsku stofnanir standa fyrir og þær grundvallarreglur og skuldbindingar sem þær byggja á. Í formennsku okkar leggjum við því áherslu á að efla enn frekar grundvallargildi Evrópuráðsins sem eru lýðræði, réttarríkið og mannréttindi,“ segir Þórdís Kolbrún en að auki leggur Ísland sérstaka áherslu á umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti. Ráðherra sagðist jafnframt vona að niðurstaða leiðtogafundar Evrópuráðsins, sem haldinn verður í Reykjavík í maí, verði efnismikil og hnitmiðuð og taki á helstu áskorunum Evrópuráðsins á þessum erfiðu tímum, ekki síst hvað varðar ábyrgð og réttlæti fyrir Úkraínu.

Þórdís Kolbrún tók einnig þátt í viðburði um mansal, sem sérstakur fulltrúi ÖSE í mansalsmálum, Valiant Richey, stóð fyrir og var sérstakur gestur á hádegisverðarfundi með fulltrúum Balkanríkja þar sem til umræðu voru málefni Vestur-Balkanskaga. Þá átti Þórdís Kolbrún fund með framkvæmdastjóra ÖSE, Helgu M. Schmid, og flutti ræðu fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um innrásarstríð Rússlands í Úkraínu á fastaráðsfundi ÖSE í morgun. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta