Lilja heimsótti íslenska dansflokkinn í aðdraganda stórafmælis
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti í gær Íslenska dansflokkinn og kynnti sér starfsemi hans og væntanleg verkefni á árinu. Íslenski dansflokkurinn verður 50 ára á þessu ári og hefst afmælishátíð hans með pompi og prakt þann 29. apríl og mun standa í heilt ár.
Sýningum dansflokksins og áhorfendum hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Árið 2020 hélt dansflokkurinn 12 sýningar innanlands fyrir um 670 áhorfendur. Árið 2021 voru sýningarnar tvöfalt fleiri, 24 fyrir rúmlega 3.400 áhorfendur og á síðasta ári hélt Íslenski dansflokkurinn 42 sýningar fyrir tæplega 8.700 áhorfendur.
Íslenski dansflokkurinn hefur þá aukið mjög samstarf sitt við erlenda aðila og fór á síðasta ári í 10 sýningarferðir til fjögurra landa, þar sem sýndar voru samtals 20 sýningar.
Um þessar mundir er hópurinn í samstarfi við Tom Weinberger, ísraelskan danshöfund sem hefur starfað um heim allan, og leit Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, við á æfingu hjá hópnum undir hans stjórn í gær. Stefnt er á að frumsýna verk hans þann 27. maí næstkomandi.
„Það er ánægjulegt að sjá hve Íslenski dansflokkurinn hefur vaxið og dafnað undir styrkri stjórn Ernu Ómarsdóttur listdansstjóra. Hópurinn hefur sett á svið stórkostlegar sýningar á síðustu árum sem hafa vakið athygli út fyrir landsteinana og er ljóst að von er á fleiri mögnuðum verkum úr smiðju hópsins á næstunni. Mikilvægi dans fyrir íslenskt menningarlíf er gríðarlegt og verður sérstök áhersla lögð á danslistina við mótun sviðslistastefnu en vinna hennar er að hefjast,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.