Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samstarf við OECD um tvö verkefni sem tengjast áherslum í stjórnarsáttmála

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur samið við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) um aðkomu stofnunarinnar að tveimur verkefnum sem tengjast áherslum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Annars vegar er um að ræða stefnumótun á sviði innflytjendamála og hins vegar stefnumótun í tengslum við innleiðingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem og vinnumál fólks með mismikla starfsgetu.

Stefnumótun á sviði innflytjendamála

Sérfræðingar á vegum OECD munu í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið vinna svokallaða ítargreiningu og heildrænt stöðumat fyrir Ísland (e. in-depth country review) sem þjóna mun mikilvægu hlutverki við fyrsta áfanga stefnumótunarvinnu á sviði innflytjendamála hér á landi. Sú vinna lýtur að því að gera stöðumat og greina kosti og galla fyrirkomulags innflytjendamála á Íslandi.

Aðkoma OECD verður einnig mikilvæg þegar kemur að því að greina, með tilliti til reynslu annarra ríkja, leiðir og aðferðir sem best eru talin stuðla að inngildingu og árangursríkri aðlögun fólks að samfélagi í nýju landi. OECD hefur átt svipaða aðkomu að stefnumótun í málaflokknum í 15 öðrum ríkjum, þar á meðal í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Stefnumótun vegna innleiðingar samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Sérfræðingar á vegum OECD munu í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið eiga aðkomu að innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi og þann þátt hennar sem tengist atvinnuþátttöku. Verkefnið tengist heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu sem nú stendur yfir í ráðuneytinu.

OECD hefur að undanförnu lagt höfuðáherslu á að lönd aðlagi stuðningskerfi sín að fólki með margs konar þarfir (e. disability mainstreaming) og hefur sú aðferðafræði oft verið kennd við inngildingu. Sérfræðingar OECD munu hafa aðkomu að þessum verkefnum ráðuneytisins í formi skýrslugjafa, gagnaöflunar, ráðgjafar, greininga, fjarfunda, málstofa og á þann hátt sem nýtist best þörfum ráðuneytisins í stefnumótunarvinnunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta