Stöðuskýrsla um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess
Stöðuskýrsla hefur verið birt um framfylgd þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Aðgerðaáætlunin var unnin í samstarfi fjögurra ráðuneyta undir forystu þáverandi félagsmálaráðuneytis. Hin ráðuneytin voru dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Aðgerðaáætlunin tekur til ofbeldis í margþættri mynd og má þar nefna líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt, andlegt og kynbundið ofbeldi. Hún byggir á þremur meginþáttum: Vakningu sem felur í sér forvarnir og fræðslu; viðbrögðum sem eru verklag og málsmeðferð; og valdeflingu sem er styrking í kjölfar ofbeldis.
Af 30 aðgerðum er 18 lokið, 11 eru í vinnslu eða lokið að hluta og ein er í undirbúningi. Meðal aðgerða sem er lokið er að koma á heildstæðu fagráði eineltismála fyrir öll skólastig sem og íþrótta- og æskulýðsstarf, koma á fót þekkingarmiðstöð um ofbeldi gegn börnum og efla vitund í samfélaginu um mikilvægi þess að sporna gegn haturstali. Enn fremur hefur verið stuðlað að menntun um ofbeldismál fyrir þau sem starfa innan réttarvörslukerfisins, áhersla verið lögð á vitundarvakningu um einelti og ofbeldi á vinnustöðum og settur á laggirnar upplýsingavefur um ofbeldi (112.is) þar sem hægt er að tilkynna um ofbeldi og fá upplýsingar um úrræði og þjónustu sem standa bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða.
Þá hefur starfsemi Bjarkarhlíðar, þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, verið fest í sessi. Í nóvember sl. fór auk þess fram fyrsti landssamráðsfundur um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess en gert er ráð fyrir að hann fari fram árlega.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur kynnt stöðuskýrsluna fyrir ríkisstjórn og áformað er að vorið 2023 verði skipaður starfshópur sem falið verði að vinna nýja aðgerðaáætlun. Vinnan verði undir forystu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins en í starfshópnum sitji fulltrúar þeirra ráðuneyta sem unnu núgildandi áætlun, auk forsætisráðuneytis. Gert er ráð fyrir að við undirbúning aðgerða muni starfshópurinn eiga í víðtæku samráði við hagsmunaaðila og sérfræðinga í málaflokknum.